148. löggjafarþing — 8. fundur,  22. des. 2017.

fjárlög 2018.

1. mál
[18:43]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið. Ég tók hvorki þátt í úrskurði kjararáðs né 4,7% hækkuninni til handa öryrkjum þegar þær ákvarðanir voru teknar en ég tek undir það, mér finnst, og okkur öllum, ég held að engan í þessum þingsal greini á um það, bætur sem örorkulífeyrisþegar þurfa að lifa á ömurlegar. Þær eru allt of lágar. Við eigum að gera miklu betur. Ég vona, þótt einhverjum finnist það kannski þunnur þrettándi, hann kemur bráðum, þrettándinn, að þetta samtal leiði til góðs og til einhverrar niðurstöðu sem geri kerfið allt betra en það er, því að það er ómögulegt eins og það er. Það að setja fullt af fjármunum inn í kerfi sem er ómögulegt, ég veit ekki alveg hvernig það er. Mér þætti ekki neitt að því þótt öryrkjar fengju afturvirkar greiðslur í eitt ár. Af hverju ekki? Það er ekkert sem mælir gegn því. Það er alveg rétt, þeir eru búnir að bíða allt of lengi. Ég tek undir það. Ég hefði sjálf (Forseti hringir.) gjarnan viljað gera eitthvað meira og betra en okkur tókst að gera. En ég get staðið hér og sannfært hv. þingmann um að það er eitt af forgangsmálum okkar að gera betur við þennan hóp.