148. löggjafarþing — 8. fundur,  22. des. 2017.

fjárlög 2018.

1. mál
[18:45]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg) (andsvar):

Ég þakka hv. þingmanni þetta. Ég tek undir það með honum að ég held að þetta hljóti að vera eitt af því sem samgönguráðherra horfi til nú þegar hann fer að setja saman fjögurra ára samgönguáætlun, og svo reyndar tólf ára líka, að þetta sé eitt af forgangsverkefnunum, vegna þess að það er hárrétt að þarna fer um alveg gríðarlegur fjöldi. Auðvitað hefði þetta átt að vera búið, eins og svo margt annað. Ég hef sagt frá því að ég kom á þing að mér finnist þetta ganga of hægt. Við hefðum átt að vera byrjuð miklu fyrr að leggja fé í þessa innviði, sem mér hefur því miður ekki fundist vera gert og hefur ekki verið gert. Við stöndum frammi fyrir því núna. Þess vegna er þetta samfélagslega verkefni orðið svo stórt og það sem við þurfum að laga svo umfangsmikið að við verðum að gera það í áföngum. Við getum ekki gert það allt á einu bretti. Það eru auðvitað margar ástæður fyrir því. Mér datt einmitt í hug í morgun þegar ég heyrði fréttirnar að þetta væri eitt af því sem hlyti að verða í næstu samgönguáætlun hjá (Forseti hringir.) ráðherra því að vegurinn er mjög fjölfarinn og orðinn mjög hættulegur miðað við umferð.