148. löggjafarþing — 8. fundur,  22. des. 2017.

fjárlög 2018.

1. mál
[18:58]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður gagnrýndi Sjálfstæðisflokkinn sem er í sjálfu sér ágætt. Ég skildi gagnrýni hv. þingmanns þannig að Sjálfstæðisflokkurinn væri farinn aðeins of langt til vinstri og hann má endilega leiðrétta mig ef það er misskilningur hjá mér. Ég velti þessu fyrir mér vegna þess að hv. þingmaður kemur úr flokki sem heitir Miðflokkurinn og er væntanlega miðjuflokkur, geri ég fastlega ráð fyrir út frá nafninu, kannski er það barnslega ályktað hjá mér, en ég geri ráð fyrir því. Sjálfur mælist ég yfirleitt vinstra megin við miðju á öllum þessum prófum sem maður tekur, en ég get nú sveiflast heilmikið til eftir því hvaða málefni um er að ræða. Ég velti þessu fyrir mér vegna þess að við erum með ríkisstjórn sem samanstendur af Vinstri grænum og Sjálfstæðisflokknum og vissulega Framsóknarflokknum. Ég hef alltaf skilið Framsóknarflokkinn sem miðjuflokk líka, alla vega í orði, síðan þegar hann er kominn í ríkisstjórn verður hann skyndilega ægilega langt til hægri enda hefur hann oftast, á þeim tíma sem ég hef fylgst með pólitík, verið með Sjálfstæðisflokknum þegar hann hefur verið í stjórn.

Hér hafa Vinstri græn verið gagnrýnd svolítið mikið fyrir að láta Sjálfstæðisflokkinn teyma sig svo langt til hægri og þetta frumvarp sé ægilega slæmt vegna þess að það sé svo mikið Sjálfstæðisflokkurinn og lítið Vinstri græn, en að sama skapi heyri ég hv. þingmann úr Miðflokknum gagnrýna Sjálfstæðisflokkinn fyrir að vera of langt til vinstri.

Ég verð að viðurkenna að ég er ægilega ringlaður yfir öllu þessi hægri/vinstri almennt, þannig að kannski er þetta alfarið misskilningur minn. Mér þætti vænt um ef hv. þingmaður gæti varpað skýrara ljósi á þetta og það væri gaman að heyra hann tala aðeins um það að hvaða leyti Miðflokkurinn er miðjuflokkur og hvort þessi ríkisstjórn sé ekki nógu mikið til hægri eða nógu mikið til vinstri eða nógu mikið í miðju fyrir hv. þingmann