148. löggjafarþing — 8. fundur,  22. des. 2017.

fjárlög 2018.

1. mál
[19:00]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir að gefa mér tækifæri til þess að ræða það áhugamál sem þessi sérkennilega ríkisstjórn er hjá mér eins og honum. [Hlátur í þingsal.] Það er alveg rétt sem hv. þingmaður segir að hugtökin hægri og vinstri í pólitík nægja kannski ekki alveg eins vel til að skýra stjórnmálin eins og áður fyrr. Ég sem miðjumaður er þó þeirrar skoðunar að það þurfi aðhald bæði frá hægri og vinstri. Ég held að væri ekki gott ef við hefðum bara einn miðjuflokk og einn formann þess flokks nema hugsanlega ef það væri sá sem hér stendur, [Hlátur í þingsal.] en það væri ekki hægt að treysta á að það væri alltaf svoleiðis. Ég geri því ráð fyrir því að það sé betra að hafa kerfi þar sem eru ólíkir flokkar með ólíkar áherslur og hafa þá aðhald bæði frá hægri og vinstri.

Þess vegna veldur það mér dálitlum áhyggjum að það er ákveðið ójafnvægi í þessu stjórnarsamstarfi sem birtist í besta falli í algjöru sinnuleysi Sjálfstæðisflokksins í því að veita þetta aðhald, en líklega bara í því að flokkurinn hafi gefist upp, verið orðinn þreyttur og látið teyma sig það langt til vinstri að hann sé kominn öfugum megin við miðjuna út frá því sem flokknum var ætlað. Enda hvað í þessu frumvarpi minnir á það jákvæða sem Sjálfstæðisflokkurinn hefur haft fram að færa, hluti eins og mikilvægi frelsis, mikilvægi þess að virða rétt einstaklingsins? Ég sé ekkert í þessum áherslum og raunar ekki mikið í stjórnarsáttmálanum sem minnir á það góða sem Sjálfstæðisflokkurinn hefur haft fram að færa. Hér eru bara skattahækkanir. Það er flóknara skattkerfi. Það eru aukin útgjöld. Aukin útgjöld geta verið mikilvæg, geta verið nauðsynleg eins og ég hef rakið í fyrri ræðum, en þau eru óæskileg og mjög skaðleg ef þau eru bara til þess fallin að viðhalda gölluðu kerfi og stækka báknið, auka kerfisræðið. Sjálfstæðisflokkurinn er að því í þessari ríkisstjórn.