148. löggjafarþing — 8. fundur,  22. des. 2017.

fjárlög 2018.

1. mál
[19:41]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mér er skylt að veita hv. þingmanni andsvar því að hann spurði sérstaklega út í orð mín hér fyrr í dag um lög um opinber fjármál. Hugsanlega hefur hann ekki heyrt það samhengi sem þau voru sett fram í, en þau orð snerust um það að lög um opinber fjármál miða við það að kosið sé að vori eins og hv. þingmanni er kunnugt um, að ný ríkisstjórn hafi þar með tíma til að setja fram fjármálastefnu, undirbúa fjárlagafrumvarp og leggja fjármálaáætlun fram síðar, að vori.

Hv. þingmaður vísar hér til þess að víða í nágrannalöndum okkar taki nýjar ríkisstjórnir við fjárlögum fyrri ríkisstjórna. Það er til að mynda rétt í Noregi. Þar er kjörtímabilið hins vegar alltaf fjögur ár því að það er lögbundið og þó ríkisstjórnir springi á kjörtímabilinu má ekki boða til kosninga heldur þarf einfaldlega að mynda nýja ríkisstjórn. Þannig má segja að Norðmenn tryggi ákveðinn pólitískan stöðugleika með löggjöfinni eins og við þekkjum af sveitarstjórnarstigi hér. Þar með hefur myndast sú hefð og venja að fráfarandi ríkisstjórn undirbýr í raun fjárlög þeirrar næstu.

Hér voru sett lög um opinber fjárlög 2015. Þau gera í raun ekki ráð fyrir þeim óvæntu atburðum sem hér hafa orðið tvisvar — þeir eru því kannski ekkert sérstaklega óvæntir lengur, kannski bara væntir. En það er það sem ég vitnaði til þegar ég sagði að þessi lög væru ekki náttúrulögmál því að þau gera ráð fyrir ákveðinni festu í því hvenær kosið er. Eðlilega er þá ríkisstjórn sem tekur við á óvæntum tíma, ef við getum orðað það sem svo, þröngur stakkur sniðinn og því vísaði ég til þess að erfitt væri að líta á þessi lög sem náttúrulögmál í ljósi þeirrar pólitísku stöðu sem uppi er þar sem lögin miða augljóslega ekki við slíkar óvæntar kosningar í þeim tímasetningum og þeim tímaramma sem þau sníða opinberum fjármálum, svo að ég skýri mál mitt fyrir hv. þingmanni.