148. löggjafarþing — 8. fundur,  22. des. 2017.

fjárlög 2018.

1. mál
[19:43]
Horfa

Jón Steindór Valdimarsson (V) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. forsætisráðherra fyrir svarið. Ég skil alveg hvað hún er að fara, en það breytir hins vegar engu um það að lögin eru svona úr garði gerð. Það er auðvitað oft þannig að lög geta verið óþægileg og þau henta ekki aðstæðum, en þau eru lög. Það verður ríkisstjórnin að sætta sig við. Það er ekkert hægt að segja: Þetta hentar ekki, við kusum á vitlausum tíma. Það þarf þá að breyta lögunum ef það er vandamálið. Menn geta ekki bara sagt: Ja, þetta er svolítið óþægilegt núna, við höfum ekki haft tíma og þetta passar ekki inn í ryþmann sem við sáum fyrir. Það skiptir engu máli. Í þessu samhengi verða menn einfaldlega að vera innan lagarammans og fylgja þeim ferlum sem lög um opinber fjármál setja.

Menn geta verið óheppnir. Þegar síðasta ríkisstjórn tók við þá var Alþingi hér og kom sér saman um að vera innan ramma þágildandi fjármálastefnu, sætti sig við það. Sú ríkisstjórn sem tók við, tók reyndar við í janúar, hafði tíma til að leggja fram fjármálastefnu og fjármálaáætlun og þetta gekk allt nokkurn veginn sæmilega samkvæmt þessu ferli. Þetta er ferli. Ef maður dettur inn í það á vitlausum stað þá verður maður bara að bíta í það súra epli eins og ég sagði hér áðan.