148. löggjafarþing — 8. fundur,  22. des. 2017.

fjárlög 2018.

1. mál
[19:44]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég tel að þessi ríkisstjórn hafi gert nákvæmlega það sem hún átti að gera við þær aðstæður sem voru þegar hún tók við. Hún leggur fram fjármálastefnu þannig að hún liggur fyrir þinginu á ótrúlega skömmum tíma, talsvert endurskoðuð frá fjármálastefnu fyrri ríkisstjórnar. Hún leggur fram nýtt fjárlagafrumvarp, bauð upp á það að leggja fram breytingartillögur við fyrra fjárlagafrumvarp ef stjórnarandstaðan, minni hlutinn, hefði óskað eftir því að fá lengri tíma hér í þinginu. Það var ósk minni hlutans að hafa hér minni tíma og fá fullbúið fjárlagafrumvarp. Við því var að sjálfsögðu orðið, enda snýst þetta um samstarf okkar í þinginu og hvernig við tökum á málum.

Við búum hins vegar líka við það að það þarf að samþykkja fjárlög fyrir áramót. Það er skylda okkar sem þingmanna að tryggja að samfélagið haldi áfram að virka sem skyldi.

Ég inni hv. þingmann eftir því hvað hann leggi til, hvort hann sjái frekar fyrir sér breytingar á lögum um opinber fjármál þannig að gert sé ráð fyrir því að komið geti til þess að kosningar séu á öðrum tíma. Eða sér hann fyrir sér að við stefnum hreinlega yfir í norska kerfið og höfum bara kosningar á fjögurra ára fresti? Það er kannski umræðan sem við ættum frekar að taka hér, hvernig við ætlum að laga lög um opinber fjármál að þeirri staðreynd að hér kann að vera kosið á öðrum tímum. Viljum við fara í róttæka stefnubreytingu hvað það varðar, þ.e. að festa kosningar í tíma eins og við þekkjum á sveitarstjórnarstigi? Mér finnst það ekki útilokað. Mér finnst það ekki útilokuð hugmynd og hefur gefist ágætlega hjá nágrönnum okkar, norskum nágrönnum. Eða sér hv. þingmaður fyrir sér að lögum um opinber fjármál verði breytt?