148. löggjafarþing — 8. fundur,  22. des. 2017.

fjárlög 2018.

1. mál
[19:46]
Horfa

Jón Steindór Valdimarsson (V) (andsvar):

Herra forseti. Enn þakka ég andsvarið. Ég get tekið undir allt sem hæstv. forsætisráðherra sagði um það að lögin eru svolítið sérkennileg þegar svona ber við. Ég get líka tekið undir að sjálfsagt þarf að skoða þetta. Ég get líka tekið undir að diskútera þarf hvort breyta á lögunum, hvort við eigum að taka upp fast kjörtímabil. Það eru ýmsar leiðir sem hægt er að skoða, ég tek alveg undir það. En það breytir ekki hinu að lögin eru lög. Þó að þau henti ekki þá verður annaðhvort að gerast, að afnema lögin, breyta lögunum, til þess hefur Alþingi vald, eða menn fari að lögunum. Ríkisstjórnin og Alþingi á ekkert nema þessa tvo kosti.

Varðandi það að fjármálastefnan hafi verið lögð fram. Það er alveg hárrétt hjá hæstv. forsætisráðherra. Hún hefur verið lögð fram. Það hefur ekki verið talað fyrir henni. Hún hefur ekki fengið neina umfjöllun í þinginu. Hún hefur ekki verið send út til umsagnar þannig að hún hefur ekki fengið neina þinglega meðferð og hefur ekki verið samþykkt. Það er gildandi fjármálastefna. Það eru áform um að breyta fjármálastefnunni. Það er ekki búið að breyta henni. Ég man ekki betur en lögð hafi verið á það gríðarlega áhersla að hlusta eftir því hvað fjármálaráð hafði að segja um síðustu fjármálastefnu. Það var mjög gagnrýnt þá, af sumum sem nú eru í ríkisstjórn, að ekki skyldi hafa verið hlustað meira á fjármálaráð. Ég hefði haldið að það hefði einfaldlega verið skynsamlegra að gera þetta rétt.