148. löggjafarþing — 8. fundur,  22. des. 2017.

fjárlög 2018.

1. mál
[20:03]
Horfa

samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er mikið rétt að sandurinn þarna hefur verið til talsverðra trafala og kannski ekki síst eftir þær náttúruhamfarir sem þarna urðu og menn gátu ekki reiknað með. En það er líka rétt að það þarf að skoða höfnina, hvernig við getum haldið áfram að þróa hana. Það var svo sem vitað þegar lagt var af stað að þegar menn fara í sandfjöruhafnir tekur talsverðan tíma að þróa þær svo vel sé, en það var líka vitað upphaflega að höfnin var alls ekki hönnuð í kringum núverandi Herjólf. Þess vegna vonumst við auðvitað eftir að sjá einhverjar umbætur á því sviði.

Það er rétt varðandi gamla Herjólf og ég hef haldið því fram bæði í ræðu og riti að það sé mikilvægt að hann verði til staðar fyrst um sinn og sigli milli Þorlákshafnar og Vestmannaeyja, bæði meðan við erum að læra hvernig þetta nýja skip mun virka og eins hvort það muni geta siglt á milli Þorlákshafnar og Vestmannaeyja eins og við vitum að mjög margir í Eyjum hafa miklar efasemdir um. En sem betur fer eru ýmsar aðrar samgöngubætur á leiðinni.

Hv. þingmaður nefndi margt í sambandi við löggæsluna. Á því sviði hefur líka orðið ágætisþróun. Árið 2014 voru settir held ég um 2 milljarðar í að fjölga lögreglumönnum. Þá var m.a. fjölgað í kjördæmi okkar. Núna eru uppi áætlanir um að fjölga lögreglumönnum umtalsvert í tengslum við þá áætlun er snertir kynferðisbrot á öllu landinu. Það er líka verkefni sem horfir til alls landsins. Það skiptir miklu máli. Ég veit að hv. þingmaður ásamt mér og ekki síst hæstv. dómsmálaráðherra deilir áhuga og löngun til þess að gera enn betur á því sviði.