148. löggjafarþing — 8. fundur,  22. des. 2017.

fjárlög 2018.

1. mál
[20:16]
Horfa

félags- og jafnréttismálaráðherra (Ásmundur Einar Daðason) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir efnismikla og góða ræðu þar sem komið var víða við. Ég ætla að reyna í þessu tveggja mínútna andsvari að koma inn á eitthvað af þeim þáttum en kannski næ ég því ekki öllu. (Gripið fram í: Bara stutt.)

Um stöðu öryrkja vil ég segja að ákveðnar viðbætur eru gerðar núna milli 1. og 2. umr. sem eru skref í rétta átt en engan veginn nóg. Það liggur ljóst fyrir að það er stefna núverandi ríkisstjórnar að endurskoða almannatryggingakerfið þegar kemur að þeim hópi fólks. Það hefur komið fram. Sú vinna hefur verið og er í gangi og verður settur kraftur í hana á fyrstu mánuðum nýs árs og vonandi gerist það hratt. Samhliða því þarf að endurskoða þá þætti almannatryggingakerfisins sem snúa að þessum hópi með það að markmiði að bæta stöðu hans.

Varðandi húsnæðismálin liggur líka fyrir að það stendur til í tíð núverandi ríkisstjórnar, og ég tek hjartanlega undir með hv. þingmanni þegar kemur að félagslegu húsnæði og mikilvægi þess að halda áfram að fjölga og byggja hvað það snertir, að byggja á löggjöf sem sett var fyrir ekki svo löngu síðan og hefur sýnt sig að virkar. En ég tek undir með hv. þingmanni um langtímafjármögnun og annað hjá ríkissjóði, það þarf að setja aukið fjármagn í það kerfi. Það kom mjög vel fram í umræðu sem fór fram um húsnæðismál á Alþingi í gær.

Síðan þarf að endurskoða bótakerfið. Þar þarf sérstaklega að huga að til að mynda vaxtabótunum og að það sem við taki þar snúi sérstaklega að ungu fólki og tekjulágum einstaklingum.

Þegar kemur að fátækt almennt og fátækt barna, því að hv. þingmaður kom inn á hana, er gríðarlega mikilvægt að skýrt er kveðið á um það í stefnu núverandi ríkisstjórnar að þar skuli grípa til aðgerða. Þar er mikilvægt að við kortleggjum vel hvaða aðgerðir við ætlum að ráðast í, hvaða breytingar við ætlum að gera, til að mynda á barnabótakerfinu, fæðingarorlofinu o.fl. sem að því snýr. (Forseti hringir.)

Virðulegur forseti, ég held að ég verði að klára í seinna andsvari.