148. löggjafarþing — 8. fundur,  22. des. 2017.

fjárlög 2018.

1. mál
[20:21]
Horfa

Halldóra Mogensen (P) (andsvar):

Forseti. Það gleður mig að heyra að ekki þurfi kærunefnd til að hæstv. ráðherra bregðist við uppsöfnuðum vanda þeirra mörgu einstaklinga í þjóðfélaginu sem upplifa brot á mannréttindum sínum hvað varðar efnahagsleg og félagsleg réttindi. Það gleður mig mjög. Ég hlakka til að sjá það gerast.

Það sem kemur fram í þessum alþjóðasamningi um efnahagsleg og félagsleg réttindi er rosalega mikilvægt því að þar er talað um að menn séu frjálsir. Eins og staðan er í dag, þegar fólk þarf að taka ákvarðanir í neyð, eru menn ekki frjálsir. Þegar kemur að fátækt er fólk fátækt einfaldlega af því að það á ekki pening. Þetta er ekkert flókið, það á bara ekki pening.

Þá þurfum við að fara að hugsa upp nýjar leiðir til að koma í veg fyrir þetta. Hjá lítilli þjóð eins og Íslendingum, sem er jafn rík af auðlindum og við, á þetta ekki að þurfa að vera vandamál. Það segir sig sjálft að þegar við pössum upp á að allir eigi nægan pening, hafi aðgang að þeim auðlindum sem þeir nauðsynlega þurfa til að geta náð endum saman, er fólk frjálst til að taka ákvarðanir og lifa lífi sínu til fulls.

Ég held að við þurfum að kafa aðeins dýpra og skoða hvort sú misskipting sem er til staðar á Íslandi sé mögulega innbyggð í þau kerfi sem við höfum skapað og hvort við þurfum ekki að fara að endurskoða málin frá grunni.

Ég vona að hæstv. ráðherra skoði þingsályktunartillögu mína um kærunefndina. Ég held að það gæti verið ágætisleið. Önnur lönd hafa tekið þetta upp og eru að nota það og það eru þegar komnar inn kærur. Þetta hefur áhrif á það hvernig ríkisstjórnir bregðast við slíkum vanda.