148. löggjafarþing — 8. fundur,  22. des. 2017.

fjárlög 2018.

1. mál
[20:27]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg) (andsvar):

Virðulegur forseti. Nei, það er ekki svo. Í raun og veru tel ég að Landspítalinn geti enn rökstutt það að þarna vanti fjármagn. Hins vegar, eins og ég hef áður bent á hér í ræðustól, eru þær tölur sem um er að ræða á skala Landspítalans svo háar. Þegar við tölum um 600 eða 645 milljónir sem á vanti í þessu tilviki erum við að tala um upphæð sem er innan við 1%. Í einhverju tilviki væri hreinlega talað um að það væri innan skekkjumarka, en það er eitthvað sem verður að koma í ljós.

Það eru fleiri stofnanir á landinu. Ég nefni Sjúkrahúsið á Akureyri sem hefur líka haft mjög skýrar og rökstuddar beiðnir. Ég nefni heilbrigðisstofnanirnar um allt land þar sem við erum að gefa svolítið í á milli umræðna. En þó ekki til að koma til móts við allar þær óskir sem þar eru uppi. En grundvallarniðurstaðan er þó sú að heilbrigðisstofnanir úti um land eru að fá viðbót upp á 8,6% meðan Landspítalinn er að bæta við 8,2% og má segja að ef horfa ætti til einhverrar heilbrigðisstofnunar sérstaklega núna væri það fyrst og fremst Sjúkrahúsið á Akureyri sem er að fá 6% aukningu á milli ára en ekki rúmlega 8% eins og hinar stofnanirnar.

Við erum að bæta umtalsvert í á milli ára. Við erum ekki að koma til móts við óskir allra, það er algerlega á hreinu. En ég held að öllum sé ljóst, sem hafa fylgst með því sem sú sem hér stendur er að segja, að grundvallaratriðið er að við erum að styrkja opinbera heilbrigðiskerfið. Við viljum gera það, bæði í auknum framlögum en líka í auknum skilningi á mikilvægi mönnunar, gæða, skilnings á breyttri aldurssamsetningu samfélagsins og fleiri þátta sem þarf að horfa til við þróun heilbrigðisþjónustunnar. En þetta verðum við að gera allt í sameiningu. Ég myndi helst vilja sjá að það væri sameiginlegt verkefni hér þvert á flokka að búa til heilbrigðisstefnu til lengri framtíðar sem stæði af sér kosningar.