148. löggjafarþing — 8. fundur,  22. des. 2017.

fjárlög 2018.

1. mál
[20:43]
Horfa

Smári McCarthy (P) (andsvar):

Herra forseti. Ég veit að það er ekki til neitt sem heitir fullfjármagnað heilbrigðiskerfi. Það var kannski illa orðað hjá mér áðan. Það sem ég meinti var að sú þjónusta sem nú er í boði myndi ekki skerðast. Ég þakka hæstv. heilbrigðisráðherra fyrir að gefa mér nákvæmlega það loforð sem við knúðum fram hér á síðustu stundu fyrir ári síðan, að það myndi ekki verða leyft að reksturinn lenti í vondri stöðu. Ef það er rétt skilið hjá mér að það sé loforð hjá hæstv. ráðherra er það ánægjulegt.

Vissulega er rétt að á árunum fyrir hrun og jafnvel síðan hefur ríkið verið rekið eftir hreinlega mjög vondri efnahagsstefnu sem byggist fyrst og fremst á gömlum trúarbrögðum sem eiga ekkert erindi inn í nútímann. Mig langar til að við á þinginu reynum að sporna við því og vonandi getum við unnið vel saman að því.

En fyrst ég er með hæstv. heilbrigðisráðherra í andsvörum langar mig til að forvitnast. Heilbrigðisstofnun Suðurlands er með bráðaþjónustu sem veitir um sex þúsund manns aðstoð á hverju ári. Oft hefur verið rætt um að sú bráðaþjónusta sé ekki beinlínis fjármögnuð með beinum hætti, það séu tilfærslur og reddingar sem haldi því gangandi. Verður það lagfært núna? Ef ekki: Hvernig stendur til að reyna að lagfæra það á næstunni?