148. löggjafarþing — 8. fundur,  22. des. 2017.

fjárlög 2018.

1. mál
[20:50]
Horfa

Bergþór Ólason (M):

Virðulegur forseti. Nú líður að lokum þessarar umræðu. Það eru ekki margir eftir á mælendaskrá, sýnist mér, en það eru nokkur atriði sem mig langar að koma inn á í ræðu minni.

Ég ætla að byrja á samgöngumálunum. Fyrir áhugasama um uppbyggingu samgöngumannvirkja verður ekki annað sagt en að þetta fjárlagafrumvarp sé gríðarleg vonbrigði. Það eru ekki margar vikur síðan meira og minna allir þeir frambjóðendur sem nú ráða einhverju í hæstv. ríkisstjórn voru uppfullir af því að fara þyrfti í stórsókn í samgöngumálum. Og hver er niðurstaðan? Milli ára er bætt við um 1.300 milljónum í framkvæmdir og síðan koma inn 680 milljónir á milli umræðna. En þá verða menn að huga að því hver núllpunkturinn er í þeim samanburði. Eftir þessa rétt um 2 milljarða viðbót erum við enn 7 milljörðum undir fjárveitingum til samgöngumála miðað við ekki nema tveggja ára gamla samgönguáætlun. Það er auðvitað staða sem verður lífsins ómögulegt fyrir landsbyggðarþingmenn að útskýra fyrir kjósendum sínum í jólaboðum sem fram undan eru. Það er engin stórsókn. Það er næstum ekkert að gerast í uppbyggingu samgöngumannvirkja. Þannig er það bara. Við skulum tala um þetta eins og það er.

Ég gef mér að hæstv. samgönguráðherra sem situr hér með okkur sé sammála mér um þetta. Þetta er allt of lítið. Það er engin stórsókn. Til að setja þetta í samhengi er verið að bæta 2 milljörðum í núna og hringtorg kostar 250 milljónir. 2 milljarðar gera ekki neina risahluti í samgöngumálum. Það er vegarkafli innan Hafnarfjarðar, hluti af Reykjanesbraut, sem ætlunin er að tvöfalda, á stuttum kafla frá Krísuvíkurgatnamótum að Kaldárselsvegi. Sá stutti kafli kostar 2 milljarða. Þá er allt landið eftir, öll verkefnin sem við erum búin að tala fyrir undanfarið.

Þetta er áhyggjuefni ef haft er í huga að fyrir vorþinginu liggur að endurskoða bæði fjögurra og tólf ára samgönguáætlun. Ég vil brýna þingið og samgönguráðherra til þess að við reynum að nálgast þá vinnu af raunsæi því að sérstaklega fyrir brothættari byggðir er ekkert verra en að klúðra væntingastjórnuninni í samgöngumálum. Þetta vildi ég segja um samgöngumál.

Mig langar til að koma aðeins inn á vinnubrögð í tengslum við fjárlagavinnuna. Það hafa allir skilning á að verið er að vinna þetta fjárlagafrumvarp, venju fremur, á stuttum tíma. Þetta er allt saman mjög umhendis og snúið. Ég held að allir séu að reyna að gera sitt besta. En þegar þannig er þá er, afsakið hvernig ég orða það, fullkomlega óþolandi að menn séu settir í þá stöðu að innan úr ráðuneytunum komi tillögur um fjárlagahluta hvers ráðuneytis þar sem menn setja meðvitað okkur landsbyggðarþingmenn í þá stöðu að taka einhvern slag ár eftir ár um hluti sem helst er hægt að líkja við að veifa gulrót framan við dýr á hlaupum.

Ég skal taka tvö dæmi. Hæstv. umhverfisráðherra þótti mér hantera það mjög vel að innan úr því ráðuneyti kemur tillaga um að skera náttúrustofur landsbyggðarinnar hér um bil inn að beini og rúmlega það. Auðvitað er það lagað í meðförum þingsins, en ég held að allir hafi verið meðvitaðir um að þetta yrði lagað. Hvað er þá verið að etja okkur í svona dellu?

Þess sama má horfa til varðandi fjárveitingar til sjúkrahúsa og heilsugæslna á landsbyggðinni. Því fór fjarri að saman færu hljóð og mynd í fjárlagatillögum sem komu frá ráðuneytinu. Nú er búið að færa þetta að hluta til til betri vegar en landsbyggðin er, að því er virðist, í miklum mun verri stöðu þegar kemur að þessu. Ef maður hallar sér aftur og horfir á tillögurnar sem komu innan úr ráðuneytunum held ég að sé alveg ljóst að landsbyggðin er í veikari stöðu gagnvart upphaflegri framlagningu fjárlaga hér um bil úr hvaða ráðuneyti sem er, eins og þetta horfir við manni núna. En ég vona að það verði tekið til athugunar í næsta hring á næsta ári, en það er ekki góður bragur á þessu.

Eitt atriði til sem mig langaði að koma inn á er hreint skattamál og eitt af þeim atriðum sem ríkisstjórnin hefur í stjórnarsáttmála sínum og langflestir flokkar töluðu fyrir í þeirri kosningabaráttu sem nú er nýliðin. Þetta er tryggingagjaldið. Berum saman það tryggingagjald sem fyrirtæki og launagreiðendur landsins bera við það sem var fyrir hrun þegar prósentan var 5,34%, samanborið við 6,87%: Þarna er munur. Í dag er atvinnuleysi minna en var á þessum punkti. Allir sem hér eru inni þekkja til hvers þessi skattstofn er ætlaður. Atvinnuleysið er minna. Staðan er samt sú að launagreiðendur landsins borga rúmum 20 milljörðum meira í ár í tryggingagjald en þeir væru að gera væri skattstofninn sá sami og fyrir hrun. Það voru allir sammála um að þetta yrði að koma til skoðunar. Það að vísa í að þetta verði skoðað í tengslum við kjarasamninga er ekki fullnægjandi svar. Staðan er sú að býsna margt hefur gengið á gagnvart atvinnulífinu undanfarin misseri. Hvað útflutningsgreinarnar varðar hefur gengið styrkst mjög verulega sem gerir stöðu þeirra erfiðari. Það er ekki eins og laun hafi ekki hækkað býsna mikið á undangengnum árum. Það að hafa tryggingagjaldið og þessa gríðarlegu auknu skattlagningu íslenskra fyrirtækja utan sviga í allri umræðunni og vísa til þess að það verði skoðað í samræmi við kjarasamninga næsta árs er ræða sem hefur verið haldin allt of oft. Það verður að taka á því hið allra fyrsta.

Það síðasta sem mig langar að koma inn á er mikið áhugamál okkar í Miðflokknum. Það snýr að nýjum spítala, nýjum Landspítala. Það er ekkert sem bendir til þess að það sé neinn áhugi á að skoða það yfir höfuð að fara, jafnvel þó ekki væri nema í grunnstaðarvalsgreiningu, til þess að mönnum geti liðið vel með þá ákvörðun að byggja upp við Hringbraut. Fyrst hæstv. forsætisráðherra er í salnum er ekki úr vegi að spyrja hana hreint út: Er hæstv. forsætisráðherra meðvitaður um að í þeim skýrslum sem unnar hafa verið á undanförnum árum og áratugum er gegnumgangandi mælt með að byggja nýjan spítala upp annars staðar en við Hringbraut sé sú leið fær? Þegar maður skoðar þau gögn sem lögð hafa verið fram undanfarin ár, og nú ætla ég að passa mig á að taka ekki mjög sterkt til orða, eru þau túlkuð mjög bjagað miðað við það sem fram kemur í þeim skýrslum sem liggja fyrir. Það er gegnumgangandi talað um að besti kosturinn sé að byggja á öðrum stað en til vara er uppbygging við Hringbraut. Þetta er hlutur sem mér finnst mjög alvarlegt að menn líti algerlega fram hjá. Þetta er algert risamál. Síðan gerðist það á síðasta ári, að því er virðist, að Vífilsstaðalandið er selt án heimildar í fjárlögum. Nú er inni heimild til að selja Keldnalandið, sem eru þeir tveir staðir sem mest hafa verið ræddir í samhengi við nýjan spítala. Það er reyndar ekki ný heimild. En að fara í einfalda staðarvalsgreiningu með skoðun á þeim gögnum sem fyrir liggja á að geta gefið býsna góða mynd á stuttum tíma. Ég vil skora á hæstv. forsætisráðherra að hafa forgöngu um að farið verði í þá vinnu. Þetta þarf ekki að taka langan tíma. Ef við Miðflokksmenn verðum slegnir kaldir þá bara tökum við því, en ég held að það sé einnar messu virði að fara í gegnum þessa vinnu.

Að endingu vil ég þakka hæstv. forsætisráðherra fyrir. Mín upplifun er að þetta fjárlagafrumvarp sé heldur mikið vinstri, það er lítið hægri í því. Skattahækkanir koma strax, skattalækkanir kannski á kjörtímabilinu. Það er verið að skoða þær seinna.

Að lokum vil ég endurtaka brýningu mína varðandi vinnubrögðin og samgöngumálin og ítreka þá spurningu mína til hæstv. forsætisráðherra hvort hún sé tilbúin að beita sér fyrir staðarvalsgreiningu sem tekur skamman tíma. Það er fullkomlega fær leið að gera hana með einföldum hætti. Þá mun mönnum líða mun betur með þá ákvörðun í stað þess að berja hana áfram á einhverju sem virðist vera misgóð túlkun á fyrirliggjandi gögnum.