148. löggjafarþing — 8. fundur,  22. des. 2017.

fjárlög 2018.

1. mál
[21:04]
Horfa

samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég tek undir með hv. þingmanni. Hv. þingmaður minntist í ræðu sinni á væntingastjórnun og hvernig þingmenn, ekki síst landsbyggðarkjördæmanna, gætu lifað af jólaboðin sem vonandi eru fram undan hjá okkur öllum á næstu dögum. Það er alveg rétt að það var vond væntingastjórnun af þinginu í október 2016 að samþykkja fjögurra ára samgönguáætlun sem var 13 milljörðum fram yfir þáverandi fjárheimildir. Það sendi mjög röng skilaboð. Enn lifum við við að það er sú samgönguáætlun sem er til og menn geta þar af leiðandi alltaf borið saman við. Síðan hafa verið lögð fram fjárlög, í fyrra, þar sem þingið lagði þó 4,5 milljarða inn í þetta og minnkaði gatið í 8,5 milljarða. Við komum svo núna ári síðar og minnkum þetta niður í 7 sem er talsverður árangur miðað við það sem á undan var.

Varðandi viðhald á samgöngumannvirkjum okkar, þessum dýru mannvirkjum sem við höfum ekki staðið almennilega við síðan 2010, þá var það á árinu 2016 um 5,5 milljarðar en verða á næsta ári um 8,3–8,4 milljarðar sem er umtalsvert betra. Það vantar þó sennilega um milljarð að lágmarki til að viðhaldinu sé sæmilega sinnt. Það er eitt af því sem þarf að horfa á.

Með því að þessi liður, framkvæmdir og viðhald, verður um 20 milljarðar á næsta ári eru þó 11,3 til framkvæmda. Það vantar eins og ég sagði nokkra milljarða enn þá til að ná þessari samgönguáætlun sem ég held að allir séu sammála um að hafi verið dálítil útópía og óskhyggja mjög margra. Það var vont upp á væntingastjórnun að senda hana í loftið. En það er einmitt áskorunin sem við stöndum frammi fyrir í fjármálaáætlun og samgönguáætlun, þar þarf að fara saman hljóð og mynd, vera samræmi á milli þótt það sé kannski ekki algert. En það þarf að vera mjög lítill (Forseti hringir.) munur þar á. Ég vonast til að það muni skýrast á fyrstu mánuðum næsta árs (Forseti hringir.) og við getum kannski farið yfir það betur í þinginu þegar þar að kemur.