148. löggjafarþing — 8. fundur,  22. des. 2017.

fjárlög 2018.

1. mál
[21:11]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni aftur fyrir. Eins og ég nefndi áðan hef ég fylgst með þessu máli frá árinu 2007. Ég hef fylgst með heilbrigðisráðherrum úr nánast meiri hluta þeirra flokka sem sitja á Alþingi fara með þetta mál og allir komast að sömu niðurstöðu. Ég myndi því telja affarasælast að þessari byggingu yrði lokið á þeim stað sem Alþingi samþykkti í kjölfar úttektarinnar 2015. Ég tel hins vegar tímabært að við förum að ræða framtíðina í þessum málum. Ég held að við Íslendingar áttum okkur ekki á að það eru engar líkur til þess að við séum nú að reisa spítala til allrar framtíðar. Við þurfum að fara að horfa til lengri tíma varðandi framtíðarstaðsetningu fyrir næsta spítala eftir einhverja áratugi. Þegar litið er til þess hve lengi staðið hefur styr um þessa staðsetningu held ég að ekki sé seinna vænna en að fara að horfa til lengri tíma. Því að það liggur alveg fyrir þegar við lítum til nágrannalanda okkar að þar eru reistir spítalar á einhverra áratuga fresti. Það veitir ekkert af að fara að horfa til lengri tíma í þeim málum. En eftir mína tíu ára setu á þingi og eftir að hafa fylgst með heilbrigðisráðherrum úr mjög ólíkum flokkum komast að sömu niðurstöðu þá treysti ég þeirri vinnu sem þar hefur farið fram.