148. löggjafarþing — 8. fundur,  22. des. 2017.

fjárlög 2018.

1. mál
[21:23]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M):

Hæstv. forseti. Á þeim stutta tíma sem nú hefur gefist milli 1. og 2. umr. hefur engu að síður gefist nokkurt ráðrúm til að gaumgæfa bæði upphaflegt frumvarp og þær breytingartillögur sem komnar eru fram við fjárlagafrumvarpið fyrir 2018. Það er ekki hægt að segja að þetta frumvarp út af fyrir sig valdi vonbrigðum vegna þess að ég hafði persónulega engar væntingar til þess. Í sjálfu sér má segja að það er ekki gott að setja fingraför eins eða annars flokks á þetta frumvarp, enda er það að 98% búið til af allt annarri ríkisstjórn og náttúrlega sömu embættismönnunum í fjármálaráðuneytinu og gerðu þessar breytingar. Breytingarnar eru þannig að menn hafa greinilega sett sér að komast af með eins lítið og hægt er. Það er engin sérstök stefnumörkun í breytingunum milli umræðna. Þetta er eins og var gert í gamla daga þegar smáflugvélar flugu yfir tívolíið og hentu niður karamellum. Það var tilviljun hvar þær lentu og hjá hverjum og í hvers fangi. Þessar breytingartillögur meiri hlutans minna mig dálítið á þessar karamellur sem féllu af himnum ofan og enginn vissi hvar myndu lenda.

Það eru hins vegar örfá atriði sem er nauðsynlegt að ræða varðandi þetta frumvarp þar sem er greinilega farin röng leið að hlutunum. Ég verð að segja að ég er aldeilis ósammála hæstv. forsætisráðherra, sem því miður er ekki í salnum núna, þegar hún sagði áðan varðandi Landspítalann við Hringbraut að allar skýrslur sem gerðar hefðu verið segðu að spítalinn ætti að vera við Hringbraut. Þetta er ekki rétt. Sú fyrsta sem var gerð lagði til Fossvog. Að minnsta kosti tvær af þeim fjórum sem á eftir komu sögðu: Ef ekki er hægt að byggja annars staðar skulum við byggja við Hringbraut. Það er hins vegar svo margt í þessu máli. Það eru fimmtán ár síðan var byrjað að athuga þetta mál og það hefur aldrei mátt ræða af alvöru þann möguleika að byggja spítalann annars staðar en við Hringbraut. Allar tilraunir í þá átt hafa verið þaggaðar niður. Þetta kom fram hjá starfsfólki spítalans á mjög góðum fundi sem var haldinn úti í Norræna húsi í haust í undanfara kosninganna. Þar kom greinilega fram að starfsfólkið á Landspítalanum við Hringbraut þorir ekki að tjá sig um þetta mál.

Það væri í sjálfu sér athugandi að gera alvöruviðhorfskönnun meðal þess starfsfólks sem er þarna á hverjum einasta degi. Undanfarin misseri hefur það búið við að vera í sífelldum sprengingum vegna þess að verið er að sprengja fyrir því húsnæði sem nú er verið að byggja á staðnum. Menn halda því fram að það muni seinka málinu mjög að velja annan stað. Það er rangt. Það sem tefst við staðarvalið, sem þurfa ekki að vera nema örfáir mánuðir, vinnst upp með framkvæmdahraða þegar verið er að vinna á ónumdu landi. Fyrir utan það að nú hafa menn bakkað aðeins í þessari baráttu, þeir sem vilja byggja við Hringbraut, og segja: Við verðum að byggja við Hringbraut meðan við erum að bíða eftir spítala annars staðar. Við erum ekki að byggja spítala til einnar nætur. Elsta húsið við Hringbraut er síðan 1930. Við erum ekkert að fara að rumpa upp einhverjum öðrum spítala næstu 20 árin vegna þess að það tekur 20 ár að byggja nýbyggingarnar við Hringbraut og lappa upp á mygluhúsin sem þar eru núna.

Það hefur enginn í þessari umræðu, alla vega ekki núna, og því miður hef ég ekki nýjar upplýsingar um það, reynt að gera sér grein fyrir hvað það kosti í nauðsynlegum samgöngumannvirkjum að koma spítalanum fyrir við Hringbraut. Hvað kosta göngin undir Öskjuhlíð? Hvað kosta mislæg gatnamót sem þarna þurfa að vera? Hvað kostar að setja Miklubrautina í stokk? Þetta er m.a. fórnarkostnaðurinn við að byggja við Hringbraut.

Menn segja að spítalinn þurfi að vera nálægt háskólanum af því að þetta er háskólasjúkrahús. Það vill svo vel til að fólk sem er nemar við háskólana er yfirleitt fólk á besta aldri og vel hreyfanlegt, miklu hreyfanlegra en veikt fólk sem liggur á spítala. Auðvitað eru það engin rök í þessu máli. Það er ekkert mál fyrir menn að sækja nám á háskólasjúkrahúsi sem er ekki rétt við háskólann í Vatnsmýrinni. Skiptir ekki nokkru máli.

Ég vona að ríkisstjórnin láti af þessari gamaldags hugsun sinni og gefi tækifæri á að það verði farið í alvörustaðarval. Svo illa vill til að í heimildarleysi var selt land á Vífilsstöðum við síðustu fjárlög sem kallað var spilda í Garðabæ, eins og þetta væri bara kartöflugarður eða sparkvöllur. Spilda í Garðabæ. Snilld. Ég vildi hitta höfund þessarar tillögu. Sá hlýtur að vera snjall, ætti að reyna fyrir sér í auglýsingabransanum. Og þetta rann í gegn. En það er ekki of seint að stoppa það að Keldnalandið fari sömu leið. Þess vegna leggjum við Miðflokksmenn til að heimildargrein sem nú er í fjárlögum um það mál verði kippt til baka þannig að Keldnalandið sé þarna, afbragðsvel staðsett, til þess að nýta það undir þetta brýna mál.

Annað mál langar mig að nefna sem er svo sem skylt en þó alls óskylt, sem ég hef lagt mikla áherslu á og við leggjum mikla áherslu á í Miðflokknum og munum koma með tillögur hér á eftir sem við hlökkum til að heyra hvaða afgreiðslu hlýtur á Alþingi. Það er tillaga okkar um að atvinnutekjur rýri ekki lífeyristekjur. Ég viðurkenni að ég sagði áðan að það væru engin sérstök vonbrigði í þessu fjárlagafrumvarpi en kannski eru helstu vonbrigðin þau að það var haldinn stór fundur í aðdraganda kosninga með eldri borgurum í Háskólabíói nú í haust þar sem hæstv. forsætisráðherra lofaði því á sviðinu í Háskólabíói fyrir framan 200–300 manns að frítekjumarkið myndi hækka upp í 109 þús. kr. eins og það var áður en það var sett niður í 25 þús. kr. Við þetta hefur ekki verið staðið. Ég segi aftur: Það er ótrúleg forsjárhyggja að ætla að skammta öldruðum sem vilja, geta og hafa áhuga á að vinna, skít úr hnefa, hvort sem það er 25 þús. kr. eða 100 þús. kr. sem hvort sem er borgast 40% tekjuskattur af. Þetta er náttúrlega ekki verjandi. Það eru í kringum 4.500–5.000 aldraðir sem vilja og geta unnið. Af hverju erum við stjórnmálamenn að hamla því að þetta fólk sem vill og getur nýti sína krafta? Af hverju erum við stjórnmálamenn að koma í veg fyrir að þjóðfélagið njóti þekkingar og reynslu þessa fólks sem er ómetanleg? Hvers vegna í ósköpunum? Og hvers vegna í ósköpunum erum við að segja: Nei, þið megið ekki vinna, þið eruð orðin gömul, verið bara heima.

Það var ágætt sem formaður Félags eldri borgara í Reykjavík sagði í Háskólabíói á þessum fundi: Við sem erum öldruð dettum ekki fram yfir síðasta söludag þótt eitt ár bætist við. Þetta er hárrétt. Hvers vegna í ósköpunum eiga þá stjórnmálamenn á hverjum tíma að hamla því að fólk sem getur og vill geti unnið, skapað sér smáaukatekjur? Menn segja að þetta kosti 2,4 milljarða. Ég leyfi mér að efast um það. Þetta er reiknuð tala, þetta eru ekki ný útgjöld, væntanlega er þetta það sem menn telja sig tapa í ofgreiddum lífeyrisgreiðslum frá Tryggingastofnun ríkisins sem þeir myndu annars ekki gera.

Ég segi aftur: 40% af þessari upphæð, ef við trúum henni, koma til baka aftur í tekjuskatti. Hvað gera aldraðir sem fá meiri peninga til að hafa handa á milli? Jú, þeir bæta sín lífskjör og lífsgæði fyrst og fremst, kaupa eflaust eitthvað betra handa barnabörnunum, ferðast eflaust. Er það slæmt? Nei, það eykur veltu í þjóðfélaginu, eykur virðisaukaskattsgreiðslur. Atvinnuþátttaka þeirra kemur í veg fyrir félagslega einangrun, hún kemur í veg fyrir að menn verði sjúkdómum að bráð sem þeir oft á tíðum fá þegar þeir hætta að vinna. Ég segi aftur: Hvers vegna í ósköpunum erum við með þessa forsjárhyggju gagnvart fólki sem er búið að vinna landinu gagn öll sín ár? Þetta er til hreinnar skammar, virðulegi forseti.