148. löggjafarþing — 9. fundur,  22. des. 2017.

fjárlög 2018.

1. mál
[22:34]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Umræðan um fjárlagafrumvarp hvers tíma er að jafnaði mjög stór umræða þar sem við tökum útlitið í efnahagsmálum fyrir. Það er eftir því tekið hér í umræðunni við 2. umr. fjárlaga að enginn boðar að kröpp kjör séu fram undan fyrir íslenska þjóð. Það er bjart fram undan og enginn ágreiningur um það hér í þingsal.

Hins vegar hefur komið fram mjög mikil fjölbreytni í sjónarmiðum um frumvarpið sjálft. Ýmist segja menn hér að ekki sé nægilega miklu varið í einstaka málaflokka eða allt of miklu varið og of geyst farið, að það sé of mikið af skattahækkunum eða of lítið af skattahækkunum. Menn koma hér upp með alla fjölbreytnina í sjónarmiðum, meira að segja fengum við að heyra rétt áðan að við vissum ekki einu sinni hvort við værum að eyða í réttu málin eða yfir höfuð hvert við værum að fara.

Það sem stendur upp úr er það að ríkisstjórnin stendur á fyrstu dögum sínum við að hækka frítekjumark aldraðra, styrkja betur heilbrigðiskerfið með auknu rekstrarfé og auknu (Forseti hringir.) fjármagni í tækjakaup, menntakerfið og samgöngur og sýnir á sama tíma ábyrgð í fjármálum, hefur greitt upp skuldir frá því að hún tók við.

Við erum á réttri leið. Það er bjart fram undan.