148. löggjafarþing — 9. fundur,  22. des. 2017.

fjárlög 2018.

1. mál
[22:39]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M):

Herra forseti. Tillaga þessi gengur út á að afnema afslátt á vörugjöldum til bílaleiga. Til stóð að afslátturinn félli niður um áramótin. Rekstur bílaleigna hér á landi hefur gengið mjög vel undanfarin ár í því góðæri sem ríkt hefur innan ferðaþjónustunnar. Engin haldbær rök eru fyrir því að bílaleigur njóti þessara sérréttinda lengur. Rökstuðningur hæstv. fjármálaráðherra fyrir því að framlengja afsláttinn er meira en lítið sérkennilegur en í greinargerð með frumvarpi til laga um breytingu á ýmsum lögum vegna fjárlaga fyrir árið 2018 segir að vísbendingar séu um að ökutækjaleigur hafi offjárfest í fólksbifreiðum. Ég endurtek: Offjárfest.

Ég spyr ykkur, ágætu þingmenn: Eiga skattgreiðendur að borga fyrir offjárfestingar tiltekinna fyrirtækja? Hinn almenni borgari getur ekki vænst þess að ríkissjóður veiti honum sérstaka skattaívilnun ef hann fer fram úr sér og offjárfestir. Þetta er góð tillaga vegna þess að hún gengur út á að þær skatttekjur sem kæmu þarna inn í ríkissjóð, 1.500 milljónir, yrðu nýttar í eftirfarandi verkefni: 200 milljónir í tvöföldun Reykjanesbrautar innan Hafnarfjarðar, 480 milljónir í allar heilbrigðisstofnanir (Forseti hringir.) á landsbyggðinni til tækjakaupa og 200 milljónir í loftslagsmál, kolefnisbindingu, þar af 100 milljónir til Skógræktar ríkisins og 100 milljónir til Landgræðslu ríkisins.

Ég hvet ykkur, ágætu þingmenn, til að greiða atkvæði með tillögunni og með sannfæringu ykkar en ekki á flokkslínur.