148. löggjafarþing — 9. fundur,  22. des. 2017.

fjárlög 2018.

1. mál
[22:43]
Horfa

Ágúst Ólafur Ágústsson (Sf):

Herra forseti. Hér leggjum við til að settar verði til viðbótar 800 milljónir til að efla löggæslu hér á landi. Þetta er eyrnamerkt sérstaklega bættri meðferð í baráttunni gegn kynferðisbrotum. Það kom fram við umfjöllun fjárlaganefndar um fjárlagafrumvarpið að þegar búið væri að draga frá uppbyggingu á upplýsingakerfi og uppfærslu hugbúnaðar fengi aðgerðaáætlun um úrbætur í meðferð kynferðisbrota einungis um 180 milljónir á næsta ári.

Ríkisstjórnin ver því aðeins 0,02% af tekjum sínum í þetta mikilvæga verkefni sem allt samfélagið hefur kallað eftir að stjórnvöld setji í forgang. Við þurfum að hefja hér stórsókn gegn ofbeldi, fjölga lögreglumönnum og setja milljarð í stórsóknina.

Þess vegna hvet ég þingheim til að segja já við þessari breytingartillögu.