148. löggjafarþing — 9. fundur,  22. des. 2017.

fjárlög 2018.

1. mál
[22:49]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M):

Herra forseti. Þessi ríkisstjórn boðaði stórsókn í samgöngumálum. Engu að síður stöndum við frammi fyrir því að miðað við samgönguáætlun vantar 7 milljarða á næsta ári. Það er eftir viðbótina sem þessi ríkisstjórn bætti tilneydd við.

Hæstv. samgönguráðherra hélt hreint dæmalausa ræðu hér fyrr í kvöld þar sem hann gerði lítið úr samgönguáætlun, talaði um hana sem einhvers konar draumóra eða útópíu þingsins.

Herra forseti. Hæstv. ráðherra átti að heita að vera starfandi forsætisráðherra á þeim tíma sem þessi áætlun var samþykkt. Sá sem hélt utan um þá vinnu sem formaður umhverfis- og samgöngunefndar var sérstakur talsmaður hæstv. ráðherra, Höskuldur Þórhallsson. Nú talar ráðherrann um þetta sem einhvers konar útópíu, einhvers konar vitleysu, og þess vegna þurfi ekki að standa við samgönguáætlun sem þingið hefur samþykkt.

Herra forseti. Hér erum við bara að bæta örlitlu við. Við ætlumst ekki einu sinni til þess að ríkisstjórnin standi við samgönguáætlun þingsins, við ætlumst bara til þess að gripið sé til nauðsynlegra ráðstafana eins og hv. þm. Gunnar Bragi Sveinsson lýsti áðan. (Forseti hringir.) Að minnsta kosti þingmenn Suðvesturkjördæmis hljóta að ætla að styðja þessa tillögu.