148. löggjafarþing — 9. fundur,  22. des. 2017.

fjárlög 2018.

1. mál
[22:53]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Ég tek líka undir að það er mikilvægt að bæta í samgöngumál. Við vonumst væntanlega öll til þess að fá að sjá afskaplega góða samgönguáætlun frá nýjum samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra á nýju ári.

Ég fagna því sérstaklega að hér er lögð til töluverð fjárhæð í Skriðdalinn sem hefur beðið afskaplega lengi. Þar er líka um öryggismál að ræða, ekkert síður en á mörgum öðrum vegum.

Af því að hér er fleira undir ætla ég líka að nefna að verið er að efla markaðsskrifstofur landshlutanna sem er ekki vanþörf á.

Síðan er líka verið að auka við í neytendamálum þar sem gert er ráð fyrir því að koma til móts við aukin verkefni í þeim.