148. löggjafarþing — 9. fundur,  22. des. 2017.

fjárlög 2018.

1. mál
[23:04]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Herra forseti. Hér er lagt til að framhaldsskólarnir fái 400 millj. kr. til viðbótar við það sem hv. stjórnarmeirihluti leggur til. Framhaldsskólarnir fóru í gegnum mikla hagræðingu á árunum fyrir hrun þannig að þegar hrunið skall yfir var ekki mikla fitu að skera en þegar við vorum að koma okkur upp úr efnahagshruninu gegndu framhaldsskólarnir mjög mikilvægu hlutverki við að styðja við unga atvinnuleitendur. Þeir hafa skorið niður hjá sér tæki og tól og þurfa viðbót þess vegna en þeir þurfa líka viðbót til að vinna að miklum áskorunum varðandi starfsnám, nýja tæknibyltingu og brottfall svo eitthvað sé upp talið.

Ég fagna áformum hæstv. ríkisstjórnar um stórsókn í menntamálum og vona að hún fari af stað á starfstímanum, en hana er ekki að finna hér þannig að hér erum við með (Forseti hringir.) 400 milljónir bara til þess að bæta slæma stöðu.