148. löggjafarþing — 9. fundur,  22. des. 2017.

fjárlög 2018.

1. mál
[23:20]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg):

Hæstv. forseti. Hér er verið að leggja til tvær breytingar sem skipta báðar gríðarlega miklu máli. Annars vegar eru settir auknir fjármunir inn í heimilisuppbót til öryrkja sem skiptir gríðarlega miklu máli því að það dregur úr vægi þess sem hefur verið kallað króna á móti krónu skerðing og er því mjög mikilvæg. Hins vegar eru einnig lögð til aukin framlög vegna notendastýrðrar persónulegrar aðstoðar og þar af sérstaklega tilteknir fjármunir sem eiga að fara til þeirra sem þurfa sólarhringsmeðferð vegna öndunarvéla. Þar er ekki um fjölmennan hóp að ræða, en þetta er gríðarlega mikilvægt fyrir þá sem þurfa á þessari þjónustu að halda.

Við höfum talað um þetta í talsvert langan tíma. Nú er verið að merkja peninga í það. Ég fagna því sérstaklega og greiði því atkvæði með því.