148. löggjafarþing — 9. fundur,  22. des. 2017.

fjárlög 2018.

1. mál
[23:22]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Við þennan lið stendur að hann kosti ríkissjóð 2,4 milljarða. Það er ekki rétt þó að þetta sé sett svona upp heldur kostar þetta ríkissjóð miklu minna. Þetta gefur hins vegar öldruðum, sem hafa vilja og kraft til þess að vinna, möguleika á að gera það án þess að stjórnmálamenn séu að skammta þeim hvað þeir mega hafa í laun án þess að verða skertir. Ég treysti því að þessi tillaga verði samþykkt.

Ég hvet til nafnakalls því að ég vil að þjóðin viti hverjir það eru sem vilja raunverulega að aldraðir fái tækifæri til að gera sér lífið bærilegra, vinna sjálfum sér og þjóðfélaginu til heilla, rjúfa félagslega einangrun sína eða koma í veg fyrir hana og vinna að því að verða hraustir lengra fram á æviárin.