148. löggjafarþing — 9. fundur,  22. des. 2017.

fjárlög 2018.

1. mál
[23:26]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Sá sem talaði hér fyrst í atkvæðaskýringu um þessa atkvæðagreiðslu stýrði nefnd í fyrra sem skilaði af sér þeim tillögum að það yrðu engin frítekjumörk, ekki á lífeyristekjur, ekki á atvinnutekjur eða aðrar tekjur. En gott og vel, nú eru menn þeirrar skoðunar að það eigi að hækka frítekjumark á atvinnutekjur og ríkisstjórnin hefur ákveðið að berjast fyrir því. Við samþykktum hér í kvöld að frítekjumarkið gagnvart atvinnutekjum yrði 100.000 kr. á mánuði en þá koma menn hingað og segja: Engin frítekjumörk á atvinnutekjur, bara frjálst að hafa hvaða laun sem er. Þá stendur eftir þessi spurning: Hvers vegna í ósköpunum eigum við að nota almannatryggingakerfið, bótakerfið, sem er hugsað fyrst og fremst til þeirra sem höllum fæti standa í samfélaginu til að styðja við þá sem hafa fínar tekjur? Gott og vel ef menn hefðu lagt til 200.000 kr., 300.000 kr. En, nei, bara engin frítekjumörk. 700.000 kr. maðurinn á að vera á bótum frá ríkinu.

Ég segi nei.