148. löggjafarþing — 9. fundur,  22. des. 2017.

fjárlög 2018.

1. mál
[23:39]
Horfa

Ágúst Ólafur Ágústsson (Sf):

Herra forseti. Hér er enn ein tilraunin til að auka útgjöld ríkisins í þágu velferðarmála. Að þessu sinni leggjum við til að 1,5 milljarðar fari til málefna eldri borgara. Landssamband eldri borgara kom á fund fjárlaganefndar og eins og allir aðrir hagsmunaaðilar sem við hittum lýstu þau yfir megnri óánægju með þetta frumvarp.

Á það hefur verið bent að um 40% eldri borgara á Íslandi lifa undir framfærslumörkum. Það eru um 42.000 eldri borgarar í þessu landi þannig að þetta er ekki lítill hópur. Það á ekki að fylgja því að eldast á Íslandi að þurfa að þola óvissu, óöryggi og fjárhagsáhyggjur. Enn og aftur köllum við eftir því að stjórnarflokkarnir standi við þau loforð sem þessum hópi hefur margsinnis verið lofað um bætt kjör.