148. löggjafarþing — 9. fundur,  22. des. 2017.

fjárlög 2018.

1. mál
[23:49]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M):

Herra forseti. Í því mikilvæga máli sem spítalamálið er virðist ríkisstjórnin hafa mjög einbeittan klúðurvilja. Það lýsir sér m.a. í þeim áformum eða áhuga á því að selja ekki aðeins Keldnalandið heldur, að því er virðist, alla þá staði sem nefndir eru sem hugsanleg staðsetning fyrir nýjan Landspítala.

Ég minni hæstv. forseta á að ekki alls fyrir löngu seldi þáverandi fjármálaráðherra, Benedikt Jóhannesson, og ríkisstjórnin þar af leiðandi og þáverandi stjórnarmeirihluti, Vífilsstaðalandið í heimildarleysi. Ég hef áður nefnt það við hæstv. forseta að það þurfi að skoða þann gjörning því að þingið getur ekki látið það viðgangast að ráðherra fari fram í heimildarleysi og selji jafn mikilvægar ríkiseigur og þarna er um að ræða. Hér sjáum við að brotaviljinn eða klúðurviljinn er það einbeittur að menn ætla að halda áfram á sömu braut en reyndar að biðja um leyfi í þetta skipti. (Forseti hringir.) Ég hvet þingheim til að hafna þessu — þ.e. því að landið verði selt. [Hlátur í þingsal.]