148. löggjafarþing — 10. fundur,  28. des. 2017.

störf þingsins.

[13:33]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P):

Forseti. Mig langar til að ræða um afgreiðslu fjárlaga og fjáraukalaga. Hér er hægt að gera gríðarlega margar athugasemdir við afgreiðslu þessara mála og mig langar að vekja athygli á nokkrum atriðum sem mér finnst vera óafsakanleg. Í breytingartillögum meiri hluta við fjárlög er að finna tillögur um fjárveitingar til aðila sem ekki eru til neinar umsagnir um á Alþingisvefnum né í skjalakerfi fjárlaganefndar. Mér er sagt að þessar beiðnir hafi komið í gegnum ráðuneytið og hafi verið skráðar í eitthvert fjármálakerfi sem ég er ekki með aðgang að. Ég get því hvorki skoðað rökin fyrir því að þessir aðilar fái styrk á fjárlögum né heldur umsóknir um styrki sem var neitað. Það ætti ekki að vera erfitt að giska í eyðurnar til að skilja hversu alvarlegt þetta mál er.

Í fjáraukalögum er síðan verið að leita fjárheimilda fyrir ýmis mál sem eiga alls ekkert heima í fjáraukalögum. Ég bað fjármálaráðuneytið um útskýringar á því af hverju hver heimild fyrir sig átti heima í fjáraukalögum út frá þeim skilyrðum sem um þau eru sett. Þá vildi ég líka fá skýringar á því til hvaða aðgerða hefur verið gripið til þess að fjárútlát haldist innan heimilda og hvernig varasjóðum hefur verið ráðstafað. Svörin fengust fyrr í dag og þau innihéldu alls ekki þær útskýringar sem ég bað um, svo ég orði hlutina varlega. Til dæmis á að koma til móts við vanda sauðfjárbænda, sem er ágætt, en þar á að setja 100 milljónir í aðrar greiðslur sem samkvæmt ráðuneytinu er ekki búið að taka ákvörðun um hvernig skuli ráðstafað. Loksins er verið að sækja fjárheimild sem ekki hefur verið stofnað til skuldbindinga fyrir en vegna þess hversu erfitt er að sjá fyrir í hvað eigi að nota þetta er erfitt að samþykkja slíka fjárheimild á þessum tíma dags.

Almennt séð hefur verið staðfest að hingað til hefur verið leitað fjárheimilda eftir á, sem sagt vegna gjalda eða skuldbindinga sem þegar hefur verið stofnað til. Þetta er einstaklega slæmur siður sem stangast á við 41. gr. stjórnarskrárinnar og Alþingi á að sameinast um að láta ríkisstjórnina hætta að stilla sér svona upp við vegg.