148. löggjafarþing — 10. fundur,  28. des. 2017.

störf þingsins.

[13:37]
Horfa

Smári McCarthy (P):

Herra forseti. Á jólahátíðinni er gott að leiða hugann að heimsfriði. Ég vil nefna tvennt sem Ísland gæti gert til að stuðla að þeim friði. Fyrst: Ísland er aðili að alþjóðlegu banni við jarðsprengjum og alþjóðlegu banni við klasasprengjum. Þetta er þrátt fyrir að NATO-bandamenn Íslands, Bandaríkin, reki eitt af stærstu jarðsprengjusvæðum heims á landamærum Norður- og Suður-Kóreu og heimili auk þess notkun klasasprengja í hernaði. Það er ótrúverðugt að Ísland geti ekki orðið aðili að alþjóðlegu banni við kjarnorkuvopnum vegna NATO-aðildar sinnar. Varnargildi slíkra vopna fyrir Ísland er ekkert. Hættan við kjarnorkuvopn er algerlega skýr núna þegar 2.056 slíkar sprengjur hafa verið sprengdar í hernaðar- og tilraunaskyni.

Það er rétt að nauðsynlegt er að afvopna öll lönd, ekki bara NATO-bandamenn okkar. Það mætti jafnvel færa rök fyrir því að Norður-Kórea, Pakistan og Indland ættu að vera fyrst til að afvopnast. En aðild Íslands að alþjóðlegum samningi um bann við kjarnorkuvopnum væri til þess að stuðla að því en ekki draga úr því.

Annað: Fréttir bárust af því í gær að forseti Bandaríkjanna hefði tekið frekjukast eftir að Sameinuðu þjóðirnar tóku mjög skýra afstöðu á móti ákvörðun hans um að viðurkenna Jerúsalem sem höfuðborg Ísraels, einhliða ákvörðun sem ógnar margra áratuga löngu friðarferli. Þetta fýlukast mun kosta Sameinuðu þjóðirnar 258 milljónir dollara á ári í skertum framlögum. Það væri kannski viðeigandi að Ísland sýndi samstöðu með markmiðum Sameinuðu þjóðanna, einnar mikilvægustu stofnunar heims hvað varðar heimsfrið, og auka framlög okkar að einhverju leyti upp á móti og sýna þar með gott fordæmi fyrir önnur lönd, hin 192 löndin sem gætu veitt fjármagn í stofnunina.

Ísland getur tekið þessa pólitísku slagi fyrir heimsfriði nú á þessum óvissutímum og við ættum að gera það. Við verðum að vera leiðandi afl í þágu mannkynsins alls. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)