148. löggjafarþing — 10. fundur,  28. des. 2017.

störf þingsins.

[13:39]
Horfa

Bergþór Ólason (M):

Forseti. Í umræðu um fjárlög varð mér tíðrætt um það að mér þætti ekki fara saman hljóð og mynd hvað varðar samgönguáætlun og fjármálaáætlun ríkisins og fjárlög. Þetta rifjaðist upp fyrir mér þegar ég hlustaði á hv. þingmann og fyrrverandi samgönguráðherra, Jón Gunnarsson, sem talaði af mikilli þekkingu um samgöngumál í útvarpsþætti í morgun. Enn ýfðist upp þessi tilfinning að menn væru að rekast á innbyrðis og núna sýndist mér á öllu að það stefndi í að það yrði staðan innan stjórnarflokkanna.

Það er mál sem mig langar til að vekja athygli á. Hér á milli umræðna í fjárlögum féll af himnum ofan hér um bil hálfur milljarður til að hefja framkvæmdir á Skriðdal fyrir austan. Síðan við hittumst síðast þá hafa aðilar að austan verið í sambandi. Þetta verk ku hvergi nærri vera í þeim forgangi sem sú aðgerð að setja hálfan milljarð í án nokkurrar umræðu gefur tilefni til að ætla. Þótt það sé auðvitað ekki spurning sett fram inn í þetta samhengi hér, þá væri áhugavert að vita með hvaða hætti hálfs milljarðs framkvæmd við vegalagningu um Skriðdal kom inn í fjárlög þegar svo miklu, miklu brýnni verkefni sem kallað er eftir á Austurlandi bíða hanteringar og afgreiðslu. Hvað kom í staðinn? Voru þetta bara einhver hrossakaup á lokasprettinum?