148. löggjafarþing — 10. fundur,  28. des. 2017.

störf þingsins.

[13:50]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M):

Hæstv. forseti. Það er alkunna að íslensk fyrirtæki og íslenskur almenningur búa við mesta vaxtaokur sem er í boði í hinum vestræna heimi. Þessi galeiðuróður fyrirtækja og einstaklinga er framkvæmdur undir taktföstum slögum Seðlabanka Íslands sem setur bönkunum grunninn með of háum stýrivöxtum.

En það er ekki einungis með háum vöxtum sem bankarnir okra á almenningi. Tekjur bankanna af svokölluðum þjónustugjöldum, sem eru í stuttu máli rukkun fyrir allt það sem var ókeypis í bönkum áður fyrr, námu á árunum 2014–2016 105 milljörðum kr. Það er nokkuð víst að sú endurbygging bankanna sem hefur orðið frá hruni hefur verið fjármögnuð af einstaklingum og fyrirtækjum í landinu og kemur í sjálfu sér snilld bankamanna ekkert við.

Mig langar til að geta um eitt atriði sem er innlegg bankanna í jólahátíðina núna þetta árið. Þeir gefa út og selja svokölluð gjafakort, fyrir 1.500 kr. stykkið held ég, þar sem einstaklingar og fyrirtæki geta lagt inn á kort og gefið vinum og vandamönnum í jólagjöf. En þar með er ekki öll sagan sögð og bankarnir eru ekki alveg búnir að sleppa hendinni af þessari jólagjöf því að sá sem reynir að innleysa eða „tæma“ þetta viðskiptakort þarf að borga 180 kr. fyrir að gera það. Sá sem er svo óheppinn að hafa fengið viðskiptakort frá öðrum viðskiptabanka en hann hefur viðskipti við hefur þann heiður að borga 480 kr. fyrir að tæma kortið.

Ég verð að viðurkenna að hugmyndaflug þessara manna til að blóðmjólka almenning er mér umhugsunarefni. Ef þetta væri ekki svona alvarlegt myndi ég hafa aðdáun á því. En að koma upp með svona hugmyndir ár eftir ár — það er ekki furða að þessir menn séu á þokkalegum launum við þetta.