148. löggjafarþing — 10. fundur,  28. des. 2017.

störf þingsins.

[13:52]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf):

Virðulegur forseti. Þjóðleikhúsið frumsýndi á annan dag jóla leikverkið Hafið eftir Ólaf Hauk Símonarson. Það var frumflutt í þessu sama húsi fyrir 25 árum, haustið 1992. Ég var svo heppin að sjá sýninguna fyrir 25 árum en einnig núna á annan dag jóla og verkið er merkilega í takt við tímann. Um hvað er það? Hafið fjallar um valdamikinn útgerðarmann í sjávarþorpi, fjölskyldu hans og grimmileg átök þeirra um fjölskylduauðinn. Og hver er svo auðurinn? Jú, virðulegur forseti, það er leyfi til að veiða fiskinn í sjónum, fiskinn okkar. Börnin vilja að kvótinn verði seldur svo auðurinn verði innleystur áður en vitleysingarnir við Austurvöll taka ákvörðun um að breyta kerfinu. Útgerðarmaðurinn hefur tengsl við þorpið sitt og er ekki sama sinnis.

Herra forseti. Þetta er sagan okkar, þetta er saga Þingeyrar, þetta er saga Grímseyjar, Raufarhafnar, Flateyrar, Þorlákshafnar, Breiðdalsvíkur og hér stöndum við, 25 árum eftir að Ólafur Haukur skrifað þetta leikrit sitt, og erum í nákvæmlega sömu sporum.

Hvað er Alþingi Íslendinga að gera fyrir byggðirnar í landinu? Hvað er Alþingi Íslendinga að gera fyrir eigendur þessa dýrs sem þarna svamlar í sjónum? Ekki neitt af því að fjárhagur fárra skal vera meira virði en samfélagið. Hvernig í veröldinni stendur á því að við erum á þessum stað?

Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnar Katrínar Jakobsdóttur er talað um stjórnarskrá og endurskoðun stjórnarskrár. Nú er búið að boða til þverpólitískrar þingmannanefndar um útlendingalög og hvet ég ríkisstjórnina til að bretta upp ermar og fara einnig í að ljúka vinnu við endurskoðun stjórnarskrár því að sú vinna er langt komin.