148. löggjafarþing — 10. fundur,  28. des. 2017.

störf þingsins.

[13:56]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (M):

Hæstv. forseti. Það vantar ekki að stjórnarflokkarnir, sér í lagi forystumenn ríkisstjórnarinnar, hafi haft uppi digurbarkalegar yfirlýsingar um bætt vinnubrögð, nýja pólitík o.s.frv. Á sama tíma er talað um ótrúlegt ástand, óvenjulegt ástand. Það er rétt, það er óvenjulegt ástand á Alþingi. Fjárlög eru afgreidd núna með nánast annarri hendi þar sem tíminn er nánast enginn til að fara ofan í málin.

Við höfum ekki orðið vör við ný vinnubrögð, ekki orðið vör við þessa nýju pólitík sem ríkisstjórnin hefur boðað. Enn þá er allt sem kemur frá stjórnarandstöðunni einfaldlega fellt, því er hafnað, því er hent út í hafsauga. Ekki var fallist á tillögur eða breytingar eða hugmyndir stjórnarandstöðunnar þegar raðað var í nefndir. Allt er þetta merki um að það á bara að halda áfram. Það á ekki að breyta neinu.

Hv. þm. Helgi Hrafn Gunnarsson kom hér inn á eitt mál í dag sem er dæmi um að það hefur ekkert breyst. Það er vandræðagangur hæstv. virðulegs dómsmálaráðherra. Dómsmálaráðherra lendir í því klandri að vera dæmdur af Hæstarétti. Hvað gerir dómsmálaráðherra þá? Hann bara situr áfram. Hvað gera aðrir stjórnarflokkar? Ekkert heyrist að sjálfsögðu frá Framsókn, þeir skríða ofan í holuna. Hvað gerir VG sem hefur staðið hér og messað yfir þingmönnum og þingheimi um ný vinnubrögð, nýja pólitík? VG segir: Æ, æ. Við þurfum að læra af þessu. Læra. Hvað þurfum við að læra lengi að virða það sem kemur frá dómstólum landsins? Auðvitað er það svo að dómsmálaráðherra á að axla ábyrgð í þessu máli. Það hlýtur að vera krafa okkar allra.

En við hljótum líka að gera kröfu til flokkanna líkt og Vinstri grænna sem hafa tekið þennan ræðustól hér, ég ætla ekki að segja í gíslingu en hafa staðið í honum tímunum saman og talað um að nú þurfi aldeilis að draga pólitíkusa fyrir dómstóla, ja, þess vegna landsins eða eitthvað annað. Hvað hafa fulltrúar VG oft staðið hér og sagt: Það þarf ný vinnubrögð? Það heyrist ekki múkk frá þingmönnum Vinstri grænna um þennan vandræðagang hjá dómsmálaráðherra. Ekki múkk. (Forseti hringir.) Eini Vinstri græni þingmaðurinn sem hefur talað er hæstv. forsætisráðherra sem ætlar að læra af þessu.