148. löggjafarþing — 10. fundur,  28. des. 2017.

störf þingsins.

[13:58]
Horfa

Willum Þór Þórsson (F):

Hæstv. forseti. Ég ætla að ræða jöfnuð og víkja að stjórnarsáttmála. Þar segir, með leyfi forseta:

„Frá efnahagshruninu hefur náðst margvíslegur árangur en enn skortir á þá félagslegu sátt sem þjóðin hefur lengi kallað eftir. Að henni þarf að vinna. Um leið þarf að bregðast við örum þjóðfélagsbreytingum og breyttri sýn á samfélagið á ótal sviðum en líka ójöfnuði ...“.

Í Fréttablaðinu í morgun segir í fyrirsögn greinar um auðsöfnun á blaðsíðu 12, með leyfi forseta:

„Auðsöfnun hinna ríku fjórfaldaðist á milli ára“.

Í leiðara í sama blaði sem Þorbjörn Þórðarson skrifar byrjar hann á orðunum:

„Þegar kyndilberar frjálsra markaða eru byrjaðir að vara við vaxandi ójöfnuði á Vesturlöndum, þá er það vísbending um að eitthvað mikið sé að.“ Og lýkur leiðara á orðunum:

„Í fjárlagafrumvarpi næsta árs er gert ráð fyrir að fjármagnstekjuskattur hækki úr 20 í 22 prósent. Í framhaldinu stendur til að endurskoða skattstofninn en markmiðið er að gera skattkerfið réttlátara óháð uppruna tekna. Þetta er jákvætt skref og það er mikilvægt að við lærum af mistökum fortíðar sem birtust meðal annars í misræmi milli skattlagningar fjármagns- og launatekna. Skattkerfið á ekki að vera hannað til að ýta undir ójöfnuð.“

Ég held að við sjáum samhengi þegar við tökum stjórnarsáttmálann og því sem vísað er í í Fréttablaðinu í dag. Það er á dagskrá hæstv. ríkisstjórnar, virðulegi forseti, að huga að skilvirkni tekjustofna á sama tíma og þeir leiði fremur til jöfnuðar en hitt, að ýta undir ójöfnuð.