148. löggjafarþing — 10. fundur,  28. des. 2017.

störf þingsins.

[14:02]
Horfa

Sigurður Páll Jónsson (M):

Hæstv. forseti. Mikilvægt áhersluatriði í stefnu flokks Miðflokksins er að stórefla iðn- og tækninám. Þar er á ferðinni mál sem flestir eru sammála um en hefur einhverra hluta vegna orðið út undan um allt of langan tíma. Viðhorfsbreytingar þurfa að eiga sér stað allt frá löggjafanum og til þeirra sem standa frammi fyrir því að velja sér námsleið til framtíðar. Þegar ungt fólk, oftast í samráði við foreldra eða forráðamenn sína, spekúlerar í námsleiðum er bóknámið oftar en ekki valið, sennilega ekki síst vegna þess að því er gert hærra undir höfði af yfirvöldum. Skortur er á iðnmenntuðu starfsfólki á vinnumarkaði úti um allt land. Því er mikilvægt að hvetja ungmenni til að sækja sér dýrmæta þekkingu í fjölbreyttu iðnnámi.

Unnið er að því að brúa bilið milli iðnnáms og háskólanáms sem eykur möguleika á frekari menntun síðar meir og er það vel. En til þess að auka áhuga ungmenna á iðn- og tækninámi þarf í fyrsta lagi að auka fjármagn til námsbrautanna, fjármagn sem sérstaklega er eyrnamerkt iðn- og tækninámi en lendir ekki í einhverjum heildarpotti sem virðist hafa verið raunin á undanförnum árum. Ekki er að sjá neina breytingu á því í fjárlagafrumvarpi sem nú liggur fyrir þó að í sáttmála ríkisstjórnarinnar segi, með leyfi forseta:

„Iðnnám og verk- og starfsnám verður einnig eflt í þágu fjölbreytni og öflugra samfélags.“

Ekki er þó að sjá að ríkisstjórnin hafi áhuga á að standa sérstaklega við bakið á iðn- og tækninámi miðað við fjárlagafrumvarpið sem nú liggur fyrir. Í heimi hraðra breytinga er ljóst að lítið samfélag mun þurfa mjög á iðn- og tæknimenntuðu fólki að halda í framtíðinni. Besta leiðin er að búa samfélagið undir örar breytingar næstu áratugi, þ.e. að styrkja nám til að gera það aðlaðandi fyrir ungt fólk dagsins í dag. Markvisst átak í iðn- og tækninámi mun skila sér margfalt aftur til samfélagsins. (Forseti hringir.) Því er ekki eftir neinu að bíða.