148. löggjafarþing — 10. fundur,  28. des. 2017.

fátækt á Íslandi.

[14:10]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir tækifærið til að taka þátt í umræðu um þetta mikilvæga mál. Ég ætla að byrja á að svara því játandi að ég tel að fjárlagafrumvarpið sýni að við erum með skýran vilja til þess að taka á fátækt á Íslandi. Dæmi um það er áherslan á það sem við finnum í fjárlagafrumvarpinu til að auka við fjárheimildir í velferðarmálin. Við erum t.d. að bæta við um 13% inn í velferðarráðuneytismálaflokkana frá fjárlögum þessa árs sem nú er að renna sitt skeið.

Fleira væri auðvitað hægt að tína til. Við tölum um það í stjórnarsáttmálanum að við hyggjumst gera úttekt á kjörum tekjulægstu hópanna í íslensku samfélagi, að koma fram með tillögur til úrbóta og þeim verði fylgt eftir á kjörtímabilinu.

Það þarf sérstaklega að huga að stöðu barna, sem málshefjandi gerir að sérstöku umtalsefni, en eins og við vitum eru þau einn af viðkvæmustu hópum samfélagsins. Þá er spurt hvort ráðherrann sé sáttur við þá örbirgð sem tæplega 10% íslenskra barna býr við.

Ég verð að byrja á að segja að ég hef fyrirvara við þá fullyrðingu sem er í þessari spurningu, þ.e. að 10% íslenskra barna búi við örbirgð. Mér finnst það ekki lýsa þeim raunveruleika sem blasir við mér í íslensku samfélagi. Það er hins vegar alveg hárrétt og mjög mikilvægt að halda því til haga að það eru of mörg börn sem búa á heimilum þar sem við erum að tala um verulegan efnislegan skort.

Tölurnar sem málshefjandi vísar til eru byggðar á svokölluðum tekjuviðmiðum þar sem við skoðum meðaltekjur og síðan könnum við hversu margir eru með 60% eða minna af meðaltekjunum. Þannig að þarna erum við að tala um hlutfallslega stöðu gagnvart öðrum hópum. Það er of langt gengið að segja hreinlega að þeir sem falla undir þann hóp hlutfallslega gagnvart öðrum búi við aðstæður sem væri hægt að lýsa sem örbirgð. Það finnst mér bara of langt gengið.

Ef við skoðum hins vegar hversu margir fylla þann hóp að búa við verulegan skort á efnislegum gæðum þá erum við með tölur frá 2015 sem segja að þar séu um 2,1% barna á Íslandi. Þetta er hlutfall sem myndi þykja mjög lágt á allan evrópskan mælikvarða. Ætli við séum ekki í 4. sæti innan OECD-ríkjanna, en engu að síður raunverulegt viðfangsefni sem á að vera okkur tilefni til þess að taka reglulega umræðu um það hvernig okkur tekst til við að lyfta undir með þeim sem eru í þessari stöðu.

Ég ætla að segja almennt um þá sem hafa lítið á milli handanna. Það sem við getum sem samfélag gert til þess að styðja við þá hópa og tryggja að þeir allir — allir Íslendingar — fái að njóta jafnra tækifæra er að reka hér öflugt menntakerfi þar sem aðgangur að menntun er algjörlega óháður efnahag. Að við höfum greiðan aðgang að allri heilbrigðisþjónustu er grundvallaratriði þess að ná betur til þessara hópa. Síðan þurfum við auðvitað að huga að öðrum almennari þáttum, eins og t.d. bara það að skapa atvinnu og hér sé verðmætasköpun í gangi.

Sú verðmætasköpun sem við höfum náð að tryggja á undanförnum árum hefur til að mynda tryggt breytingar til hópa eins og ellilífeyrisþega í gegnum almannatryggingakerfið þannig að ellilífeyrisþegi sem býr einn og hefur engar aðrar tekjur fékk á árinu 2009 180 þús. kr. á mánuði en fær á þessu ári 280 þús. kr. á mánuði. Sama er með öryrkja sem býr einn og hefur engar aðrar tekjur, þar erum við að horfa upp á nákvæmlega sömu breytingu, úr 180 þús. kr. árið 2009 upp í 280 þús. kr. á þessu ári. Þetta er auðvitað gríðarlega mikil breyting. En betur má ef duga skal.

Ég vil bara fagna því að hafa fengið öflugan talsmann eins og þann sem hér hefur opnað umræðuna inn á þing til að halda stjórnvöldum við efnið og koma inn með þá reynslu og þekkingu sem hv. þingmaður hefur inn í þennan málaflokk. En ég kalla eftir því að við notum þá tölurnar sem eru byggðar á rannsóknum. Þar erum við að tala um að um 2% barna búi á Íslandi á heimilum þar sem verulegur skortur er á efnislegum gæðum.

Síðan varðandi almannatryggingakerfið þá höfum við svo sannarlega verið að bæta í svo um munar á því sviði.