148. löggjafarþing — 10. fundur,  28. des. 2017.

fátækt á Íslandi.

[14:18]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Herra forseti. Við ræðum fátækt á Íslandi og sú umræða er góð og á að vera hér reglulega. Fátækt er á Íslandi, það er staðreynd.

Misskiptingin hefur verið að aukast og heldur áfram að aukast þó að efnisleg gæði í landinu aukist. Þá safnast auðurinn á æ færri hendur. Þetta er veruleiki sem við þurfum að bregðast við, sama hvar í flokki við stöndum, og horfast í augu við hann. Það er ekki ásættanlegt að yfir 6.000 börn á Íslandi búi við efnahagslegan skort, hvort sem varðar fæði, klæði eða húsnæði. Það er veruleikinn.

1.600 börn búa við alvarlegan skort, 1.600 börnum of mikið. Þetta er veruleikinn. Það er ekki nóg að tala um þetta fjálglega og reglulega ef verkin fylgja ekki í kjölfarið. Við settum hér á Velferðarvakt árið 2009. Hún var endurskipulögð í tíð Eyglóar Harðardóttur, þáverandi félagsmálaráðherra, og er enn að störfum. Eftir Velferðarvaktina liggur góð skýrsla með tillögum og greiningum. Við þurfum ekki miklar greiningar til viðbótar, þetta liggur allt fyrir. Við þurfum að vinna eftir þeirri skýrslu og tillögum að kerfisbreytingum sem Velferðarvaktin hefur lagt fram.

Þess vegna verður þessi ríkisstjórn, sem ég er stuðningsmaður að, að sýna í verki, þótt ekki hafi náðst í þessum fjárlögum að gera nægilega mikið fyrir fátækasta fólkið í landinu, á þessu kjörtímabili að hún setji fátækt fólk á Íslandi í forgang, (Forseti hringir.) í okkar góða landi þar sem efnahagurinn er það góður að fátækt á ekki að líðast.