148. löggjafarþing — 10. fundur,  28. des. 2017.

fátækt á Íslandi.

[14:21]
Horfa

félags- og jafnréttismálaráðherra (Ásmundur Einar Daðason) (F):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þm. Ingu Sæland fyrir að taka þetta mál upp á Alþingi og eins hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra fyrir að veita andsvör. Það er gríðarlega mikilvægt og gott að taka þessa umræðu hérna.

Ég vil segja að það liggur algerlega skýrt fyrir að stefna ríkisstjórnarinnar er sú að auka jöfnuð í íslensku samfélagi. Hún er líka sú að taka á fátækt og skoða sérstaklega stöðu barna í því samhengi. Inn á þetta kom hæstv. fjármálaráðherra í ræðu sinni og fleiri þingmenn hafa gert það.

Ég vil kalla eftir samstarfi þvert á flokka þegar kemur að þessu. Það er afar mikilvægt að við skoðum þetta algerlega ofan í kjölinn. Það liggur ljóst fyrir að margt hefur verið lagt til í þessum efnum en líka að stórar aðgerðir eins og þessar verða ekki lagðar fram og kláraðar á tíu dögum, sem var sá tími frá því ríkisstjórnin tók við þar til fjárlagafrumvarp var tilbúið.

Ég held að skipta þurfi þessu í tvennt. Annars vegar að skoða, og það liggur fyrir að mitt ráðuneyti mun setja þá vinnu af stað strax í upphafi ársins, hvað varðar fátæktina, og hæstv. fjármálaráðherra kom inn á stöðu þeirra hópa sem minnst hafa í íslensku samfélagi, til hvaða aðgerða verður gripið. Þar þarf að skoða m.a. stöðu örorkulífeyrisþega, vaxtabótakerfið, barnabótakerfið og fleiri þætti. Það liggur undir og lagðar verða fram tillögur hvað það snertir, rétt eins og fjármálaráðherra kom inn á. Síðan er það staða barna almennt, sem ég held að sé miklu víðtækara og stærri spurningar sem við þurfum að spyrja okkur þar. Þar þarf að fara fram vinna þvert á málaflokka. Þar tengjast inn í til að mynda menntamálaráðuneyti, heilbrigðisráðuneyti, sveitarfélög og fleiri aðilar. Þar eigum við ekki einungis að taka undir stöðu barna sem búa við fátækt heldur barna sem búa við félagslega erfiðleika af fleiri orsökum en vegna fátæktar.

Inn á þetta er komið í stjórnarsáttmála núverandi ríkisstjórnar. Bæði þessi verkefni eru í undirbúningi og verða sett í farveg strax í byrjun nýs árs. (Forseti hringir.) Ég vænti þess að í framhaldinu komi tillögur til Alþingis, bæði í formi fjárlagatillagna og með öðrum hætti. Ég þakka fyrir þessa umræðu og vænti stuðnings við þetta og samstarfs við hv. þm. Ingu Sæland sem og aðra þingmenn.