148. löggjafarþing — 10. fundur,  28. des. 2017.

fátækt á Íslandi.

[14:26]
Horfa

Þorsteinn Víglundsson (V):

Herra forseti. Ég þakka þessa mikilvægu umræðu. Það er alveg rétt sem fram hefur komið að þrátt fyrir allt hefur okkur miðað vel í að draga úr fátækt. Það dregur ekki úr mikilvægi þess að halda áfram að gera vel í þessum málaflokki.

Það er tvennt sem mig langar að nefna sérstaklega sem ég held að sé gríðarlega mikilvægt í þessum efnum. Það er annars vegar jöfnunarhlutverk skattkerfisins. Það er held ég að verði að segjast stærsti veikleiki þessa fjárlagafrumvarps sem hér liggur fyrir þinginu sem og fjárlagafrumvarps síðustu ríkisstjórnar. Það er kerfisbundið búið að grafa undan mikilvægum stuðningskerfum eins og vaxta- og barnabótakerfunum. Þrátt fyrir áform um að endurskoða slík kerfi breytir það ekki stöðunni á þessu ári eða því næsta. Það er þá ekki fyrr en í fyrsta lagi árið 2019 sem við sjáum áhrifin af þeim breytingum.

Auðvitað endurspeglar það forgangsröðun ríkisstjórnar sem nær á tíu dögum að sprauta 20 milljörðum inn í þetta sama fjárlagafrumvarp en gerir ekkert til þess að vinna á þessum helsta veikleika sem snýr að tekjujöfnunarhlutverki skattkerfisins og sér í lagi að reyna að endurreisa þótt ekki væri nema að hluta vaxta- og barnabætur.

Það er í öðru lagi mikilvægt að við horfum til þess að endurskoða skattkerfið í heild. Það er mjög ankannalegt hversu há skattbyrðin er orðin á tekjulægstu hópana í samfélaginu. Þar vegur kostnaðurinn við núverandi persónufrádrátt mjög þungt. Þetta kerfi verður að endurskoða með það að markmiði að draga úr skattbyrðinni. Það getur hjálpað mjög stórum hópum, hvort sem horft er til öryrkja, ellilífeyrisþega eða þeirra sem lægstar hafa tekjurnar á vinnumarkaði. Jöfnuður er ekki lengur umræða um hægri eða vinstri pólitík, þetta er einfaldlega mjög mikilvægur þáttur í stöðugleika í samfélaginu.

Síðan er annað sem verður ekki farið yfir í stuttu máli hér en það skiptir miklu máli að endurskoða örorkulífeyriskerfið til að auka hvata til virkni, til þátttöku, og að þeir sem eru á örorkulífeyri hafi ávinning af þátttöku í samfélaginu, (Forseti hringir.) í atvinnulífinu. Þetta skiptir mjög miklu máli.