148. löggjafarþing — 10. fundur,  28. des. 2017.

fátækt á Íslandi.

[14:31]
Horfa

Ásmundur Friðriksson (S):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að þakka málshefjanda fyrir þessa afar mikilvægu umræðu um fátækt og mismunun á Íslandi. Þrátt fyrir góða stöðu Íslands í ýmsum samanburði um fátækt barna og fjölskyldna lifir enginn á þeim samanburði. Við lifum ekki á súluritum eða hagvísum. Þess vegna er mikilvægasta hlutverk okkar allra að tryggja jafnvægi, sömu tækifæri fyrir alla, að ríki og sveitarfélög, sem og ráðuneyti eins og hér hefur komið fram, tryggi jafna möguleika allra til náms og íþrótta, tryggi öllum félagslega aðstöðu og aðgengi að heilbrigðisþjónustu.

Ég minni líka á að ýmsir minnihlutahópar hafa barist fyrir framgöngu sinni, eins og t.d. heyrnarlausir. Frá því að ég kom á þing árið 2013 hef ég minnt á það reglulega að heyrnarlaus börn í þessu landi fá ekki sama tækifæri til náms og t.d. blind börn, svo ég tali nú ekki um þau sem eru sjáandi og heyrandi. Þrátt fyrir marga fundi með fjölskyldum þessara einstaklinga höfum við ekki verið bænheyrð. Við megum ekki mismuna börnum, fátækum, fötluðum eða hvernig sem þau standa höllum fæti í samfélaginu.

Ég er á móti allri mismunun hvernig sem hún birtist. Ég velti líka fyrir mér hvort við öll, kæru vinir hér í þessum sal, viljum ekki líka horfa í eigin barm og hugsa: Hvað gerum við til að mismuna ekki?