148. löggjafarþing — 10. fundur,  28. des. 2017.

fátækt á Íslandi.

[14:33]
Horfa

Guðmundur Andri Thorsson (Sf):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Ingu Sæland fyrir að hafa frumkvæði að þessari þörfu umræðu. Við eigum aldrei að sætta okkur við fátækt. Hún er óþolandi. Og við megum aldrei venjast henni, heldur eigum við að beita öllum ráðum til að uppræta hana. Hún er fylgifiskur ákveðinnar hugmyndafræði sem kennd er við nýfrjálshyggju. Eins og kemur glögglega fram í nýrri bók Stefáns Ólafssonar og Arnaldar Sölva Kristjánssonar um ójöfnuð á Íslandi réð sú stefna för hér á landi frá upphafi 10. áratugar síðustu aldar og fram að hruni svo misskipting óx mjög. Þessi stefna, nýfrjálshyggjan, endar óhjákvæmilega og alltaf í hruni.

Fátækt er pólitísk ákvörðun. Það er komið undir stjórnvöldum hverju sinni hversu útbreidd hún er. Það er pólitísk ákvörðun að búa svo um hnútana að auðug félög í eigu auðmanna geti staðið í stórfelldum kaupum á húsnæði til að leigja síðan fátæku fólki á uppsprengdu verði í stað þess að stórauka framboð á félagslegu húsnæði. Það er pólitísk ákvörðun að láta vaxtabætur og barnabætur standa í stað.

Stjórnarandstaðan hefur nú lagt til að allt fólk undir lágmarkslaunum skuli fá óskertar barnabætur. Þetta kostar um 1,8 milljarða kr. Ríkisstjórnin hefur uppi áform um að láta semja um þessa lágmarkssanngirni, barnabætur, í komandi kjarasamningum, væntanlega sem skiptimynt til að halda niðri launum. Ekki þarf að hafa mörg orð um réttlætið í því fyrirkomulagi.

Þetta er afar einfalt, þetta er einfaldlega pólitísk ákvörðun okkar hér.