148. löggjafarþing — 10. fundur,  28. des. 2017.

fátækt á Íslandi.

[14:35]
Horfa

Kolbeinn Óttarsson Proppé (Vg):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þm. Ingu Sæland fyrir að kalla fram þessa umræðu. Mér heyrist að við séum nokkuð sammála í þessum þingsal. Ég ætla að lýsa mig sammála hv. þm. Ingu Sæland um að það er þjóðarskömm að það sé fátækt á Íslandi. Ég ætla ekki að festa mig í því hversu margir lifa við fátækt, hvort það er þessi prósentan eða hin. Mér finnst það þjóðarskömm að einhver þurfi að lifa við fátækt. Ég held að fátækt hafi fylgt okkur því miður lengur en nýfrjálshyggjan. Allt of lengi hefur hluti þjóðarinnar búið við fátækt, en við höfum þau skilyrði hér að geta breytt því ástandi og komið í veg fyrir að fólk lifi við fátækt því að við lifum í ríku samfélagi. Ef gæðunum er rétt skipt þarf enginn að búa við fátækt.

Mig langar að taka undir brýningu hv. þm. Ingu Sæland til okkar allra, hvort sem við erum í stjórn eða stjórnarandstöðu, að við sýnum auðmýkt gagnvart verkefninu sama hvar við erum í flokki, við festum okkur ekki í fyrirframgefnum kreddum, að við festum okkur ekki í einhverri hugmyndafræði, festum okkur ekki endilega í stefnu stjórnmálaflokka okkar, heldur tökum höndum saman til að vinna að því verkefni að útrýma einfaldlega fátækt á Íslandi. Ég er sammála því að það er hægt. Það er hægt ef viljinn er fyrir hendi, ef við nálgumst verkefnið af nægilega mikilli auðmýkt þá er það hægt. Það á að vera á ábyrgð okkar allra. Með því er ég ekki að skjóta mér undan því að vera þingmaður stjórnarmeirihlutans, því það er fyrst og fremst á ábyrgð okkar þar.

Ég vona að við berum gæfu til að vinna saman að þessu máli og við þurfum ekki að vera að ræða þetta hér aftur og aftur. Ég tek undir með hv. þm. Lilju Rafneyju Magnúsdóttur að við horfum til þeirra tillagna að aðgerðum sem þegar eru til eins og hjá Velferðarvaktinni.