148. löggjafarþing — 10. fundur,  28. des. 2017.

fátækt á Íslandi.

[14:43]
Horfa

Inga Sæland (Flf):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að þakka hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra fyrir svörin. Ég vildi gjarnan, eins og ég sagði í upphafi, að þau hefðu verið öðruvísi og minna kannski talað um prósentur og tölur. Það sem oft hefur borið við í þessari umræðu er að verið er að tala um meðaltekjur og meðal-hitt og meðal-þetta.

Við erum að tala um fátækt, ekki meðallaun, meðaltekjur eða meðalframfærslu. Við erum að tala um þá sem eru langt frá því að ná því marki að geta talist í meðaltekjum.

Við sjáum á fjárlagafrumvarpinu að það er byrjað að skerða barnabætur við 242.000 kr. Nú getum við sýnt hug okkar í verki, það er komin fram breytingartillaga þar sem óskað er eftir að þessi skerðing hefjist ekki fyrr en við 300.000 kr. lágmarksframfærsluviðmið.

Ég er ótrúlega þakklát fyrir að finna að við a.m.k. segjum hér og virðumst vilja standa saman, hvað svo sem verður. Ég vona að það sé af heilindum, að við getum tekið saman höndum hvar í flokki sem við stöndum og sammælst um að hér eigi ekki að líðast fátækt.

Svo er annað, við erum með lágmarksframfærsluviðmið sem er um 240.000 án þess að inni í því sé húsnæði. Með húsnæðiskostnaði er þetta hátt í 400.000 kr. Við höfum aldrei talað um annað en að fara hóflega leið og talað um 300.000 kr. án skatta og án skerðinga, útborgað. Það er ekki nóg að tala um ofsalega hækkun á framfærslu þegar í því felst að það er verið að tala um 280.000–300.000 kr. og þá á eftir að taka af því skatt. Eftir standa þá rúmar 242.000 kr. sem eru ekki nóg.

Að lokum þakka ég öllum þeim sem tóku þátt í þessari umræðu og sýndu sannarlega, a.m.k. með því sem við vorum að tala um, að við erum sammála um (Forseti hringir.) að getum útrýmt fátækt og gert það saman.