148. löggjafarþing — 10. fundur,  28. des. 2017.

fátækt á Íslandi.

[14:45]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég vil aðeins byrja á að segja að varðandi útfærslu á 69. gr. tel ég að hún hafi verið lögum samkvæmt á undanförnum árum. Þingið hefur tekið þá ákvörðun ár eftir ár þannig að ég kannast ekki við að verið sé að útfæra þá tryggingu sem felst í greininni með röngum hætti.

Hér hefur töluvert verið rætt bæði um barnabætur og vaxtabætur, fyrst og fremst um að hækka hvort tveggja. Það er svo sem ágætt. Ég hef beitt mér fyrir því á undanförnum árum að hækka barnabæturnar en færa líka hærra hlutfall af þeim til þeirra sem eru með lægri tekjur, auka tekjutengingarnar en hækka bæturnar. Það hefur skilað sér í auknum stuðningi við þá sem eru með minna á milli handanna.

Ég held hins vegar að barnabótakerfið sé langt frá því að vera fullkomið og reyndar alls ekki neitt nálægt því, ekkert frekar en vaxtabótakerfið. Vaxtabótakerfið skilar hvað mestum vaxtabótum til þeirra sem hafa efni á að taka stóru lánin. Þó að þarna uppi séu eigna- og tekjuskerðingarmörk höfum við samt sem áður haft dæmi um fólk sem er langt yfir meðaltekjum í þessu landi en tekur stuðning úr þessum stuðningskerfum. Ef menn vilja taka á dagskrá vaxtabóta- og barnabótakerfin í umræðu í þinginu um fátækt þurfum við að stokka þau kerfi upp alveg frá rótum, ef þau eiga fyrst og fremst að gagnast þeim sem hafa allra minnst á milli handanna.

Varðandi húsnæðismálin hlýt ég að koma þeirri athugasemd að hér að staða heimilanna hefur lagast töluvert mikið á undanförnum árum. Við höfum verið með róttækar aðgerðir til að styðja betur við heimilin. Ég gæti nefnt allt frá skuldalækkunaraðgerðum yfir í húsnæðisbótakerfi sem við höfum tekið upp og innleitt yfir í félagslega húsnæðið, hvernig lögin hafa tekið stakkaskiptum á því sviði o.s.frv.

Að lokum, þessi umræða hér í dag snýst að verulegu leyti um jöfnuð (Forseti hringir.) og það er sjálfsagt að koma því að í þeirri umræðu að á alla alþjóðlega viðurkennda mælikvarða um jöfnuð stendur Ísland fremst meðal ríkja. (Gripið fram í.)