148. löggjafarþing — 10. fundur,  28. des. 2017.

mannvirki.

4. mál
[15:10]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Þetta er mál sem ég held að lengst af hafi fáum hugnast að tala mikið um. Þetta er, eins og kemur fram í frumvarpinu, framlenging á bráðabirgðaástandi vegna þess að embættum byggingarfulltrúa hefur ekki tekist að afla sér faggildingar. Það virðist mjög einfalt og sjálfsagt við fyrstu sýn og ég hygg að flestir þingmenn hafi litið svo á en ég get ekki annað en minnst á umsögn frá fyrirtæki sem heitir Inspectionem. Þar birtust áhyggjur og tillögur sem ég fæ ekki séð að hafi verið ræddar. Ég sé það ekki í gögnum þingsins. Ég er ekki í hv. umhverfis- og samgöngunefnd sjálfur, og við erum reyndar ekki með nefndarmann þar heldur áheyrnarfulltrúa, en svo virðist sem þessir aðilar hafi ekki verið boðaðir á fund til að ræða þetta eða velta upp öðrum möguleikum við frumvarpið. Mér sýnist liggja alveg ljóst fyrir að þetta mál kemur seint fram, það kemur a.m.k. þessum aðila að óvörum. Svo heyri ég sögur af því að það hafi komið öðrum aðilum í samfélaginu líka að óvörum og það kemur niður á rekstri þeirra fyrirtækja.

Mér finnst mikilvægt að halda þessu til haga. Ég held að þetta mál hefði verið unnið öðruvísi ef við hefðum haft tíma til að vanda okkur. Ég held að þetta mál sé enn eitt einkenni þess hvað við erum í miklu óðagoti og höfum lítinn tíma. Við getum ekki sinnt því hlutverki sem almenningur ætlast til af Alþingi, sem er að ástunda vönduð vinnubrögð, taka yfirvegaðar og upplýstar ákvarðanir með hliðsjón af staðreyndum og rökum þannig að við tölum við hagsmunaaðilana, tökum tillit til þeirra sjónarmiða og reynum að búa þannig um hnútana að það komi sér sem best fyrir alla. Ég hygg að tímaskorturinn geri það að verkum að ekki gefst færi á að skoða þetta nógu vel.

Ég hygg í fljótu bragði að tillagan sem kemur frá þessu umrædda fyrirtæki ætti alveg að virka og geta gengið upp. Þá þyrftum við ekki að ganga á hagsmuni þessa fyrirtækis eða annarra í sambærilegri stöðu.

Mér fannst rétt að nýta þann tíma sem er til að minnast á þetta vegna þess að mér finnst hann koma aftur og aftur upp, þessi hábölvaði tímaskortur sem er sérstaklega mikill núna, en við skulum líka halda því til haga að þetta er óþarflega mikið þema á Alþingi og var líka 2013–2016 þegar ekkert átti að vera að flýta sér. Þá var hins vegar alltaf búin til einhver tímapressa út af einu eða öðru sem gerði það að verkum að við gátum ekki sinnt hlutverki okkar sem Alþingi Íslendinga á þann hátt sem almenningur býst réttilega við. Mér finnst alveg tilefni til að nefna það sérstaklega undir þessum kringumstæðum, sérstaklega þegar maður kemur auga á það greinilega allt of seint að betur hefði mátt fara en fór.