148. löggjafarþing — 10. fundur,  28. des. 2017.

mannvirki.

4. mál
[15:14]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P):

Herra forseti. Er nokkuð hægt að fá ráðherra í salinn? Í frumvarpinu, sem er stjórnarfrumvarp, er verið að stilla upp góðum leikreglum sem koma fram í handbók um stjórnarfrumvörp um samráðsvinkil. Ég vildi eiga lítinn orðastað við ráðherra um samráð. Er hægt að kalla ráðherrann í salinn fyrir það?

Ég get haldið áfram að tala um málið.

Lykilatriðið er að samkvæmt stjórnarfrumvörpum á að leita samráðs. Það er talað um það hérna en samt sem áður virðist ekki hafa verið haft samráð við þau fyrirtæki sem gætu sinnt þessu. Þau málefnalegu sjónarmið sem koma fram eru að klárlega þarf að gera það sem frumvarpið segir, þ.e. að lengdur sé sá frestur sem aðilar hafa til að leita sér faggildingar og að þetta sé enn í höndum ríkisins sem sinnir þessu eins og það er að gera þannig að við getum haldið áfram að faggilda hlutina. Þetta hefur verið trassað lengi. Aftur á móti er ekki loku fyrir það skotið að fagaðilar, eins og sendu inn umsögn um málið, geti sinnt þessu samhliða. Það er mikil þörf á að þessu sé sinnt vel og að þetta sé ekki flöskuháls í þeim mikla uppbyggingarfasa sem á að fara í á húsnæðismarkaðnum.

Það sem ég vil spyrja ráðherra út í, fyrst ég rak augun í þetta, er hvort leitað hafi verið til þeirra aðila sem uppfylla þessi skilyrði til að geta sinnt löggildingu, leitað til þessara einkaaðila. Þeir sendu inn umsögn til Alþingis. Var leitað til þeirra í ferlinu þegar verið var að vinna málið hjá ráðuneytinu?

Má vænta ráðherra?

(Forseti (SJS): Hæstv. umhverfis- og auðlindaráðherra hefur verið gert kunnugt um að óskað hafi verið eftir nærveru hans en hann er ekki í húsi. Ég hef ekki upplýsingar um hversu langan tíma taki að fá ráðherrann til umræðunnar.)

Ókei. Almenna meginreglan er að ráðherra sé til staðar þegar verið er að ræða hans frumvörp.

(Forseti (SJS): Forseti ætlar ekki í orðaskipti við hv. þingmann meðan hann er í ræðustól.)

Ókei. Þetta er sjónarmið sem einhver annar gæti kannski átt orðastað við mig um. Kannski er framsögumaður málsins hjá nefndinni meðvitaður um hvernig þetta var unnið í nefndinni. Ég sit ekki í henni sjálfur en framsögumaður hlýtur að hafa kynnt sér málið það vel að hann geti mætt í ræðustól og svarað fyrir það. Ég skoða hvernig þetta lítur út með framsögumann málsins. — Ég sé það ekki merkt. Það hlýtur þá að vera sá sem — (Gripið fram í: Hann er að koma.) Hann er að koma, já. Ókei.

Var hv. þingmaður meðvitaður um það sem ég var að spyrja varðandi þetta erindi sem kom frá einkaaðilum og hvernig ferlið var hjá ráðuneytinu varðandi meginreglur um stjórnarfrumvörp, um að leita samráðs? Það er spurningin.