148. löggjafarþing — 10. fundur,  28. des. 2017.

varnir gegn snjóflóðum og skriðuföllum.

5. mál
[15:19]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Í frumvarpinu er að finna áhugaverða texta sem mig langar aðeins til að púsla saman með tilliti til fjárlaganna. Í umsögn Sambands íslenskra sveitarfélaga er talað um að það að lengja þessa heimild til að ofanflóðasjóður geti sinnt kostnaði við hættumat vegna eldgosa, vatnsflóða og sjávarflóða rýri í rauninni getu sjóðsins til að taka þátt í og fjármagna þau hefðbundnu verkefni sem sjóðurinn á að sinna. Þar sem talað er um mat og áhrif í frumvarpinu er sagt að frumvarpið muni ekki hafa „fjárhagsáhrif á ríkissjóð“ en að upphæðir sem taldar eru upp séu þó allar með þeim fyrirvara — sem sagt talað um 50 milljónir, 40 milljónir og 20 milljónir vegna sjávarflóða o.s.frv. — að árlegar fjárheimildir ofanflóðasjóðs haldi. Það á sem sagt að halda því til haga að ef fjárheimildir ofanflóðasjóðs verði ekki auknar muni það leiða til þess að geta sjóðsins til að styrkja gerð varna gegn ofanflóðum á vegum sveitarfélaganna verði minni sem þessum upphæðum nemur. Þetta er í rauninni mótframlag ríkisins fyrir þessi verkefni.

Á bls. 305 í fjárlagafrumvarpinu er fjallað um þennan kafla, 17.4 Varnir gegn náttúruvá, og þar er talað um að yfirstandandi verkefni fyrir næsta fjárlagaár séu tvö á Ísafirði, eitt í Vesturbyggð, eitt í Fjallabyggð og eitt í Fjarðabyggð, þó nokkur verkefni, en líka er talað um að heildarfjárheimild til málaflokksins lækki um 6,3 milljónir frá gildandi fjárlögum vegna hagræðingarkröfu.

Mér finnst áhugavert að í fjárlögunum er einmitt talað um að undir málaflokkinn Varnir gegn náttúruvá heyri líka gerð hættumats eldgosa, vatnsflóða og snjóflóða og þar er ofanflóðasjóður sem tilheyrir málaflokknum. Fjárlögin eru gerð fyrir árið 2018 en lögin sem þetta frumvarp á að breyta eiga að renna út í lok þessa árs, 2017. Þess vegna er verið að framlengja þau en í fjárlögunum er gert ráð fyrir því að þetta frumvarp gangi í gegn sem er alveg góðra gjalda vert sem slíkt en það kemur niður á framkvæmdagetu sjóðsins til að standa undir skuldbindingum sínum. Við höfum ekki fengið nægilega greinargóð svör í rauninni, ekki einu sinni umsögn frá ofanflóðasjóði, um það hvernig eða hvort hann getur staðið undir þessum verkefnum sem honum eru sett samkvæmt fjárlögunum. Við vitum það ekki, við höfum ekki fengið tíma til að skoða það.

Þegar ég púsla því saman hvernig það stendur í frumvarpinu og í fjárlögunum er ekkert útskýrt að þetta muni að lokum standa undir þeim verkefnum sem seinkar þá væntanlega framkvæmdum á öllum þeim verkefnum sem á að taka tillit til sem eru sögð hérna níu til tíu talsins fram til ársins 2022. Væntanlega er hægt að spýta eitthvað í á næstu árum, en við erum að tala um fjárlög fyrir næsta ár. Af því að við erum enn að vinna í þeim mætti halda að það væri hægt að gera betur grein fyrir því hvernig þetta virkar saman.

Ég vil bara gera athugasemd við það að gert er ráð fyrir því í fjárlögum 2018 að lagagreinin hérna verði framlengd til 2022. Það er ekkert sjálfsagt í sjálfu sér en alveg sjálfsagt verkefni upp á það að gera og á sama tíma er kallað eftir því í frumvarpinu að ofanflóðasjóður verði fjármagnaður nægilega til að geta staðið undir verkefnum sem er síðan ekki gert í fjárlögunum.

Hérna er áhugaverð víxlverkun og ég held að þingið og fólk fyrir utan ætti, upp á framtíðina að gera, að vita hvernig fer fyrir þessum verkefnum á þessu ári.