148. löggjafarþing — 10. fundur,  28. des. 2017.

varnir gegn snjóflóðum og skriðuföllum.

5. mál
[15:24]
Horfa

Ari Trausti Guðmundsson (Vg):

Herra forseti. Ég ætla ekki að koma inn á eða svara hv. þm. Birni Leví Gunnarssyni. Ég reikna með að hv. formaður nefndarinnar geri það, Bergþór Ólason. Ég ætla aðeins að ræða um það sem ég hef minnst á hér áður í framhaldi af þessum málum ofanflóðasjóðs sem er sem sagt hamfarasjóður sem er búið að leggja verulega vinnu í að undirbúa. Ég lít á fyrirliggjandi frumvarp sem mjög mikilvægt og þarft sem bráðabirgðalausn til að tryggja að hættumat fari fram á náttúruvá um þann tíma sem það tekur að koma hamfarasjóði á og minni á að nefndarálit sem hér var lagt fram var samhljóða unnið í hv. umhverfis- og samgöngunefnd.

Hamfarasjóður er gríðarlega mikilvægur og í raun framför miðað við það fyrirkomulag sem verið hefur hingað til og því er mjög mikilvægt að við veitum honum brautargengi. Mér skildist á gestum sem komu fyrir nefndina í tengslum við afgreiðslu þessa máls að það væri ákveðið fótakefli eða flækjustig vegna hugsanlegrar fjármögnunar hamfarasjóðs og að vinna væri stödd þar núna í þeirri nefnd sem átti að undirbúa löggjöf í þessu efni að verið væri að skoða ýmsar hliðar fjármögnunar á þessum sjóði. Ég hvet hv. þingmenn til að fylgjast vel með hvernig þessu reiðir af.

Ég myndi auk þess beina mínu máli til hæstv. umhverfis- og auðlindaráðherra og hvetja hann til að láta ljúka þessari skoðun sem allra fyrst, leggja fram frumvarp við fyrsta tækifæri og þá hvetja þingheim allan til að hjálpast að við að afgreiða það með jákvæðum hætti þegar þar að kemur. Eins og ég segi er það margt undir á Íslandi þegar kemur að náttúruvá, ég þarf ekki að tíunda eldgos, jarðskjálfta eða storm, sjávarflóð eða hvaðeina, og því brýnt að við búum þannig um hnútana að hér sé raunverulega öflugur samhæfður sjóður sem tekur á þessu öllu í einu. Verkefni ofanflóðasjóðs sem eru að búa til varnir gegn snjóflóðum, eðjuflóðum og öðru slíku verða að ná eðlilega fram að ganga.

Því sem hv. þm. Björn Leví Gunnarsson kom hér fram með vísa ég til formanns eða annarra í umhverfisnefnd.