148. löggjafarþing — 11. fundur,  28. des. 2017.

breyting á ýmsum lögum vegna fjárlaga 2018.

3. mál
[15:52]
Horfa

Frsm. minni hluta efh.- og viðskn. (Oddný G. Harðardóttir) (Sf):

Herra forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti minni hlutans og fyrir breytingartillögu okkar um frumvarp til laga um breytingu á ýmsum lögum vegna fjárlaga fyrir árið 2018. Við 2. umr. um frumvarpið skiluðu þeir stjórnmálaflokkar sem skipa minni hluta nefndarinnar hver um sig nefndaráliti þar sem pólitískar áherslur hvers flokks ásamt breytingartillögum voru kynntar. Fyrir 3. umr. sameinast flokkarnir um breytingar á viðmiðum fyrir barnabætur og vaxtabætur.

Annars staðar á Norðurlöndum og víðar í Evrópu hefur ríkt mikil sátt um gildi stuðnings til barnafjölskyldna en hér hefur markvisst verið dregið úr vægi hans. Barnabætur annars staðar á Norðurlöndum eru föst upphæð á barn en stuðningur á Íslandi er ekki aðeins háður fjölda og aldri barna heldur einnig tekjum foreldra og hjúskaparstöðu. Mikil skerðing barnabóta strax við lágar tekjur, líkt og ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur leggur til, stuðlar að meiri fátækt meðal vinnandi fólks. Hjón sem bæði eru í launaðri vinnu en á lágum launum fá litlar barnabætur hér á landi. Það er meðal þess sem veldur því að barnafjölskyldur eru líklegri til að búa við fátækt hérlendis en barnlausar fjölskyldur.

Hæstv ríkisstjórn leggur til að viðmiðum til úthlutunar barnabóta verði aðeins lítillega breytt þannig að foreldrar með minna en 242 þús. kr. á mánuði fái óskertar barnabætur í stað 225 þús. kr. á árinu 2017. Greiðslur með fyrsta barni hækka aðeins samkvæmt þessu um 1.447 kr. á mánuði og greiðslur hækka um 1.758 kr. á mánuði við hvert barn eftir það. Hæstv. ríkisstjórn leggur þetta til þótt barnabætur hafi dregist saman um 23% að raunvirði frá árinu 2008 og að þeim fjölskyldum sem njóta barnabóta hafi fækkað um meira en tólf þúsund frá árinu 2013.

Minni hlutinn leggur til sem málamiðlun milli norræna fyrirkomulagsins og tillagna ríkisstjórnarinnar að skerðingarmörk barnabóta árið 2018 miðist við lágmarkslaun, sem verða þá 300 þús. kr. á mánuði. Foreldrar með lægri tekjur en það fái því óskertar barnabætur. Í nefndarálitinu sem minni hlutinn samdi eru stöplarit og töflur sem sýna hvað þessar breytingar þýða sem minni hlutinn leggur til samanborið við breytingartillögur ríkisstjórnarinnar og hvernig staðan er á árinu 2017. Hv. þingmenn sem styðja ríkisstjórnina geta skoðað þetta vandlega áður en þeir gera upp hug sinn.

Áætlað er að útgjöld ríkissjóðs aukist um 1,8 milljarða kr. verði tillagan samþykkt.

Frumvarpið sem við ræðum gerir ráð fyrir að tímabundnar útreikningsreglur og viðmiðunarfjárhæðir vaxtabóta, í ákvæði til bráðabirgða í lögum um tekjuskatt, verði framlengdar um eitt ár. Greiddar vaxtabætur ríkissjóðs hafa lækkað verulega á undanförnum árum. Vegur þar þungt að eignaviðmiðum hefur ekki verið breytt þrátt fyrir miklar hækkanir á fasteignaverði. Er nú svo komið að einstaklingar og sambúðarfólk með lágar árstekjur (t.d. í 3. tekjutíund) í hóflegu húsnæði njóta lítilla sem engra vaxtabóta. Miðað við sambærilegar tekjur og eignarhlutdeild í eign árið 2008 fékk þessi hópur vaxtabætur sem námu um 30–40% vaxtagjalda sinna en í dag eru þær hverfandi.

Minni hlutinn leggur til að eignaviðmið einstaklinga og hjóna og samskattaðs sambúðarfólks samkvæmt bráðabirgðaákvæðinu hækki um 5,2 millj. kr. Samkvæmt minnisblaði sem fjármála- og efnahagsráðuneytið tók saman fyrir nefndina mun þessi hækkun vaxtabóta, vegna hækkunar á eignaviðmiðum skerðinga, um 5 millj. kr. koma lægstu þremur tekjutíundum best.

Í nefndarálitinu eru breytingartillögur bæði fyrir barnabæturnar og vaxtabæturnar.

Undir þetta nefndarálit skrifa, ásamt þeirri sem hér stendur, hv. þingmenn Helgi Hrafn Gunnarsson, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson. Þorsteinn Víglundsson. Hv. þm. Ólafur Ísleifsson, sem er áheyrnarfulltrúi í nefndinni, er samþykkur áliti þessu.

Virðulegur forseti. Nú hef ég mælt fyrir nefndaráliti minni hlutans. Mig langar að bæta aðeins við vegna umræðna um fátækt sem var hér fyrr í dag. Þar talaði fólk fjálglega um hversu mikil þjóðarskömm það væri að á Íslandi, þessu ríka landi, þekktist fátækt og skortur hjá fólki, hvort sem það væri efnahagslegur skortur eða félagslegur. Hv. þm. Lilja Rafney Magnúsdóttir benti á, réttilega, að misskipting væri hér að aukast. Það væri veruleiki sem við þyrftum að bregðast við. Hún talaði um að það ætti auðvitað að gera en að tíminn hefði verið naumur og því ekki hægt að gera það akkúrat núna, að taka á þessu máli. Mér finnst mikilvægt innlegg inn í þessa fátæktarumræðu og umræðu um stöðu barna að stíga þetta litla skref að minnsta kosti, að barnabætur skerðist ekki fyrr en við lágmarkslaun.

Hæstv. félags- og jafnréttisráðherra talaði um að það væri stefna ríkisstjórnarinnar að vinna gegn fátækt og sérstaklega þyrfti að huga að stöðu barna. Það var sama sagan í máli hæstv. ráðherra þegar hann talaði um tímaskort, þ.e. að ef hann hefði ekki verið fyrir hendi hefði ríkisstjórnin gert miklu betur.

Hv. þm. Kolbeinn Óttarsson Proppé var alveg sammála því að um þjóðarskömm væri að ræða, að fátækt fyndist á Íslandi. Hann fullyrti að við gætum breytt þessu. Ég er sammála hv. þingmanni. Hann bað um þverpólitíska auðmýkt gagnvart verkefninu og vildi að við tækjum höndum saman. En ef ég skildi hv. þingmann rétt vildi hann bara gera það seinna.

Ég hef fréttir að færa hv. stjórnarþingmönnum. Það tekur enga stund að samþykkja tillögu minni hlutans um þetta litla skref til þess að bæta stöðu barnafjölskyldna á Íslandi sem felst í að barnabætur skerðist ekki fyrr en lágmarkslaunum er náð. Þetta er pínulítið skref en skiptir mjög miklu máli fyrir þær barnafjölskyldur sem verst standa hér á landi.

Síðan skulum við tala um endurskoðun á kerfinu því að auðvitað eigum við að stíga stærri skref í framhaldinu og stefna að því sem best gerist í öðrum norrænum ríkjum sem eru lönd sem við eigum að bera okkur saman við í þessu sambandi.

Ég vona innilega og held jafnvel að það geti gerst — því hæstv. ráðherrar og hv. stjórnarþingmenn hafa talað um ný vinnubrögð, málamiðlanir, þverpólitíska sátt um stór mál — að þetta skref sé hægt að stíga núna, þannig að ekki sé öllum slíkum málum skotið inn í framtíðina heldur sýnum við hér í verki að þetta er hægt. Það er hægt að taka sameiginlega ákvörðun um góð mál. Núna leggjum við í minni hlutanum til að breyting verði á barnabótum og vaxtabótum.

Í nefndaráliti meiri hlutans er einnig tillaga sem fjallar um gjaldtöku í framhaldsskólunum og að framlengja bráðabirgðaákvæði um að leyfa aukna gjaldtöku á nemendur sem stunda starfsnám í framhaldsskólum. Samkvæmt gildandi lögum stendur að innheimta efnisgjalds sé ekki heimil fyrir efni sem nemendum er látið í té samkvæmt einhliða ákvörðun skóla, svo sem í skylduáföngum í verknámsbrautum. Þó sé heimilt að innheimta efnisgjald fyrir efni sem skólinn lætur nemendum í té ef þeir hafa af því ávinning eða sérstök not, svo sem vegna smíðisgripa í áföngum sem nemendur stunda í frjálsu vali. Þetta stendur í lögunum. En hv. stjórnarmeirihluti leggur til að taka megi hærra gjald af verknámsnemendum.

Eftir hrunið á árunum 2009, þegar við vorum hér á vonarvöl, var þessi bráðabirgðabreyting gerð. Þessu var skotið á frest, þessu ákvæði í framhaldsskólalögum, vegna þess að ríkissjóður stóð svo illa. Þingheimur hafði samþykkt þetta 2008 en þá vorum við reyndar líka í góðæri, eða héldum það, sáum ekki, mörg okkar, hrunið fyrir, en höfðum þá samþykkt að auðvitað ætti ekki að taka svona mikinn efniskostnað og skella honum yfir á nemendur heldur ætti skólinn sjálfur að bera það og ríkisfjárframlög ættu að koma til þess.

Ég er á móti því að framlengja þetta bráðabirgðaákvæði núna þegar við erum aftur komin í góðæri og erum á toppi hagsveiflunnar. Af hverju eigum við, í boðaðri stórsókn hæstv. ríkisstjórnar í menntamálum, þar sem sérstaklega á að leggja áherslu á starfsmenntun, að leggja til og samþykkja að nemendur í starfsnámi borgi stóran hluta af því efni sem þeir þurfa til að stunda námið? Er það innlegg í stórsókn í menntamálum og bót í starfsmenntun? Hæstv. fjármálaráðherra talaði um það, í ræðu sinni áðan í sérstökum umræðum um fátækt, að eitt af því sem skipti mjög miklu máli til að bæta stöðu fólks og tryggja að allir hefðu sömu tækifæri væri að aðgengi að menntun væri algerlega óháð efnahag.

Virðulegi forseti. Ég legg til að við fylgjum þessum orðum hæstv. fjármálaráðherra eftir og leggjum ekki sérstakar álögur á nemendur, þá fáu, sem velja sér starfsnám í landinu, heldur höldum okkur við framhaldsskólalögin frá 2008 þar sem fram hafði farið mjög mikil umræða einmitt um þetta mál meðal skólafólks, hagsmunaaðila, alls konar félaga og iðngreina. Niðurstaðan var þessi: Ef það er nauðsynlegt fyrir nemandann til að komast í gegnum námið, þetta efni, á ríkið að borga það en ekki nemandinn sjálfur.

Ég vil halda mig við það. Því að nú er aftur komið góðæri og við þurfum ekki bráðabirgðaákvæði sem sett var í miðju efnahagshruni.